24.2.06

Háfrónskan og skopmyndaskáldin


Ég var að skoða vef fyrir miðstöð háfrónska tungumálsins og sá þar mörg skemmtileg orð og myndir. Það er auðvitað tilvalið að kalla súkkulaðiköku mógætisröndu og kókoshnetur loðhnetu, síló geymslustöpul og sement steinlím og gíraffa gnæfinga svo eitthvað sé nefnt. Kók er auðvitað snjóbeiskjugos og sjálfsagt að sporna gegn meila-skrolla-blogga hryðjuverkaógninni. Háfrónskan hefur auðvitað sérstök orð yfir það sem á ensku er kallað cartoon og cartoonist, það eru skopmyndir og dráttlist og skopmyndaskáld. Plakötin eru skemmtilegar háðsádeilur þekktar auglýsingar og slagorð.

Bandarísk skopmyndaskáld hafa blandað sér í skopmyndaslaginn með mörgum beittum skopmyndum. Mér finnst flugbeitt myndin af markalínu fyrir tjáningarfrelsið, við erum víst öll í vandræðum með að finna þá línu núna:

Svo finnst mér líka skondið þessi hryðjuverkateikning.

14.2.06

Opinn hugbúnaður og Reykjavíkurborg

Mikið vildi ég að stjórnvöld hefðu meiri áhuga á opnum hugbúnaði. Reyndar veit ég að það hefur verið fylgst vel með þróun varðandi opinn hugbúnað hjá forsætisráðuneytinu í verkefninu um íslenska upplýsingasamfélagið. Nágrannaþjóðir okkar hafa margar skoðað vel Open office pakkann og sums staðar hafa stjórnvöld ákveðið að taka alfarið upp opinn hugbúnað bæði til að spara og svo til að vera ekki háð einum framleiðanda eða söluaðila. Stóru alþjóðlegu fyrirtækin sem hafa haft yfirburða markaðsstöðu hafa reyndar líka fylgst vel með og án efa þá hafa náðst mun betri samningar við t.d. Microsoft vegna þess að núna veitir opinn hugbúnaður raunverulega samkeppni. Þannig hefur tilvera opins hugbúnaðar komið öllum notendum hugbúnaðar til góða, líka þeim sem nota ekki opinn hugbúnað. Forsætisráðuneytið (upplýsingasamfélagið) lét gera ágætis skýrslu í fyrra um opinn hugbúnað. Laurent Somers hefur líka tekið fram skýrslu um opinn hugbúnað á Valsárskóla á Svalbarðsströnd í Eyjafirði.

Opinn hugbúnaður er miklu meira en bara að fá hugbúnað ókeypis. Opinn hugbúnaður og sú samvinna sem fer fram við gerð slíks hugbúnaðar og þau samfélag sem eru að myndast og hafa myndast eru miklu meira í takt við Internetþróun en séreignarhugbúnaður og þau markaðsmódel sem hann hefur hingað til byggst á.

Það er ekki síst í skólakerfinu sem við ættum að horfa vel á opinn hugbúnað. Bæði vegna þess að þar er er erfitt að fá fé til hugbúnaðarkaupa og það er yfirleitt þannig að við verðum að velja ódýrar og útbreiddar lausnir og það sakar ekki að stofnkostnaður sé enginn. Það eru tvö ágætis open source námsumsjónarkerfi til, það eru moodle og elgg. Hið fyrra Moodle er mjög gott og hefur verið notað með góðum árangri í þúsundum skólastofnana. Stórir aðilar eins og Open University í Bretlandi hafa ákveðið að fara yfir í það kerfi. Elgg er nýtt en það er reyndar miklu nýstárlegra og fellur betur að mínum hugmyndum um námsumhverfi. Það er hins vegar unnið að samvinnu þessarra tveggja kerfa.

Það er leiðinlegt að núna hefur verið tekin ákvörðun að kaupa kerfið Blackboard í grunnskóla í Reykjavík án þess að skoða vel aðra valkosti, án þess að skoða opinn hugbúnað. Blackboard er ágætis kerfi og WebCT og Blackboard hafa sameinast og munu væntanlega setja betri og ódýrari afurð á markaðinn eftir tvö ár - já þau kerfi eru alveg nauðbeygð til þess vegna þess að það er erfitt að selja vöru þegar sams konar vara - ef ekki miklu betri vara - er gefinn ókeypis á Internetinu fyrir hvern sem vill hlaða þeim niður. Sigurður Fjalar hefur skrifað upplýsingatæknideild Reykjavíkurborgar og beðið um upplýsingar. Hann hefur fengið svar um hvers vegna Reykjavíkurborg valdi Blackboard og birtir það á blogginu sínu.

Það er hins vegar stóra spurningin hvað kostaði þetta kerfi borgarsjóð og hvort Reykjavíkurborg ætlar ekki líka að styðja við þróun og notkun á opnum hugbúnaði í skólamálum í Reykjavík. Stundum heyrist sú röksemd að þegar upp er staðið þá sé opinn hugbúnaður dýrari og það getur vel verið ef um er að ræða tvö kerfi þar sem afar mismunandi stuðningur er og opna kerfið krefst mikils tæknilegs stuðnings. Þannig er því alls ekki háttað með Moodle sem ég þekki mjög vel, ég hef árum saman rekið Moodle vef á www.esjan.com/moodle og það er einfalt og þægilegt kerfi, ég hef getað annast uppfærslur sjálf bara með að smella á einn hnapp. Hef ég þó enga sérstaka kunnáttu á php og mysql. Hér er t.d. námskeið um íslensku húsdýrin sem ég setti upp fyrir nemendur mína sem sýnishorn af námskeiði í Moodle. Moodle er ókeypis, hver sem einn getur hlaðið því niður af moodle.org, það eru fjölmargir sem vinna að þróun þess og það hefur verið þýtt á íslensku og það virkar bara alveg þrælvel. Ég hef ekki séð neitt sem WebCT eða Blackboard hafa fram yfir. Nema náttúrulega að fólki finnist gaman að borga fyrir það sem aðrir fá ókeypis.

12.2.06

Danskurinn og fjanskurinn sitt hvorum megin við Djúpavog

Það er ekki tilviljun að það eru skopmyndir sem valda svona æsingi. Svona myndrænt efni hentar vel til að miðla boðskap á milli menningarheima. Ástandið var eldfimt og svona myndrænt efni með einföldum boðskap sem allir geta skilið var hentugt íkveikjuefni. Eða sprengjuefni til að sprengja dýpri skurð á milli "okkar" og "þeirra". Dönsku myndirnar tólf miðla þessum einfalda boðskap "Hí á þig!" til múslima.

Hér er vídeóklipp þar sem spaugarar gera grín að skopmyndahasarnum.

Hér arabískar skopmyndir um skopmyndamálið í boði aljazeerah. Þetta eru skopmyndir sem birst hafa í dagblöðum í löndum múslima. Svo er hérna egypti sem fékk vitrun frá Allah um 10 ný boðorð

Annars er skrýtið að lesa það sem sérstaka árás á múslima að gert sé gys að trúarbrögðum eða helgisögnum og þeim sem starfa í kirkjunni. Þeir vita sennilega ekki að það er alsiða í okkar menningu að níða niður það sem trúuðu fólki finnst heilagt. Okkar verðlaunaða þjóðskáld Megas hefur ort margt verra en "Guð býr í garðslöngunni, amma". Kvæði hans um Ragnheiði biskupsdóttur sameinar bæði kvenfyrirlitningu og fyrirlitningu á íslenskri kirkjusögu. Megas hefur reyndar sýnt flestu öðru sama virðingarleysið þannig að hann gerir nú ekkert upp á milli hvort hann yrkir um biskupa, Jónas eða Hvassaleitisdóna. Sverrir Stormsker klæmdist og orti einhverjar ambögur út úr þekktum vísum eins og Adam átti syni sjö.

Ég vona að fólk fari að átta sig á því hvað við erum heppin að Gunnar í Krossinum er fremstur í flokki bókstafstrúarmanna á íslandi. Gunnar er mildur og friðsamur maður miðað við það sem við erum að sjá núna til bókstafstrúarmanna víða um lönd.

10.2.06

Wikipedia hittingur

Wikipedians er alþjóðlegur nördaklúbbur netverja sem vinna að því að skrifa saman alfræðirit á Netinu. Þessi klúbbur teygir anga sína til Íslands því hér vinna margir að því að skrifa íslenska Wikipedia útgáfu, hver sem er getur skrifað inn efni. Ég fór á fyrsta alþjóðlega mótið hjá Wikipediu, það var Wikimania 2005 í Frankfurt en næsta mót verður Wikimania 2006 í Boston.

Íslenskir "Wikipedians" hittast líka stundum og ég fór á Wikipedia hitting á Kaffi Viktor í gærkvöldi. Það voru sex mættir, það voru Jóna Þórunn, Smári, Ævar, Guðmundur, Salvör og Heiða María.

Hér eru tvær myndir frá fundinum.

Heiða María, Ævar, Jóna Þórunn 2

Guðmundur, Heiða María, Ævar, Salvör,  Jóna Þórunn, Smári
Guðmundur, Heiða María, Ævar, Salvör, Jóna Þórunn, Smári

Þetta var skemmtilegur og vel heppnaður fundur og það má ekki vanmeta hvað mikilvægt er að hittast og spjalla óformlega saman þó unnið sé að verkefni þar sem hver sem er getur unnið í án þess að tala sérstaklega við hina. Það er ágætis handbók með Wikipedia. Umræður í íslensku wikipedia fara fram í Pottinum eða á spjallsíðum sem tengjar eru við allar síður í Wikipedia.

8.2.06

Vi danskere og vores national identitet


Vi danskere er vældig kede av situationen, det brenner jo in mange land. Karikaturerne er typisk dansk humor, som vi danskere er vant til og derfor let kan fordøje. Jeg som dansker er overrasket over disse reaktioner, måske burde vi vise mer respekt for andre kulturer og passe på ad vi ikke krænker deres værdier.

Vi ved jo ad det er vigtigt for muslimer ad profeten Muhammed ikke billedliggjøres og ennu mer vigtigt er ad profeten ikke hånes eller vanhelliges. Muslimer er ikke terrorister og islam er ikke hærværk og vold.

Det er mærkeligt ad nu når jeg er blevet dansker ud av solitaritet med danskere så tar nordmend i nød op et andet national identitet, de blir islændinger.

7.2.06

Við erum öll Danir núna... nú eða breskir námsmenn í ögrandi fötum

We are all Danes now í Boston Globe eftir Jeff Jacoby er um þá árás sem nú hefur verið gerð á tjáningarfrelsi og brýning um að hrinda henni. Jeff dregur fyrst upp mynd af því hvernig væri ef hindúar brygðust harkalega við útsölu á nauta- og kálfakjöti í Danmörku vegna þess að það er forboðinn matur í hindúatrú þar sem kýr eru taldar heilagar verur. Hann segir að hinn íslamski heimurinn geti ekki skipað hinum frjálslynda hugmyndaheimi Vesturlanda fyrir um hvað við megum grilla og hvað sé bannfært, við lifum í heimi þar sem eru gildi sem þekkjast ekki í sumum múslimalöndum, við lifum í heimi þar sem fjölmiðlar hafa tjáningarfrelsi, þar sem er opið markaðstorg hugmynda og þar sem fólk hefur rétt til að grilla heilagar kýr á teinum. Jeff Jacoby bendir á alvöru málsins og hve mikilvægt sé að standa fast á tjáningarfrelsinu þó það sé um skrípamyndir sem eru ekki einu sinni fyndnar þó þær séu móðgandi og ögrandi. Hann segir það sama og mér finnst, þetta er alvarleg árás á tjáningarfrelsi Vesturlanda og þessi ógn mun ekki fara í burtu. Hann varar við að núna snúist þetta um ófyndnar skrípamyndir en á morgun geti krafan verið að kæfa niður orð og hugmyndir okkar.

Hér er brot úr greininni We are all Danes now:
...
"That anything so mild could trigger a reaction so crazed -- riots, death threats, kidnappings, flag-burnings -- speaks volumes about the chasm that separates the values of the civilized world from those in too much of the Islamic world. Freedom of the press, the marketplace of ideas, the right to skewer sacred cows: Militant Islam knows none of this. And if the jihadis get their way, it will be swept aside everywhere by the censorship and intolerance of sharia.
.......
Make no mistake: This story is not going away, and neither is the Islamofascist threat. The freedom of speech we take for granted is under attack, and it will vanish if it is not bravely defended. Today the censors may be coming for some unfunny Mohammed cartoons, but tomorrow it is your words and ideas they will silence. Like it or not, we are all Danes now"

Áðan hlustaði ég meira á netupptökur fjölmiðla um þetta skrípamyndamálið. Það stuðar mig enn og aftur hvað ónákvæmur fréttaflutningurinn er - já og svo litaður af því að gæta hlutleysis að það snýst upp í andhverfu sína. Ég hlustaði á upptöku af menningarþættinum Spegilinn á Rúv frá því í gær. Þar var orðrétt eftirfarandi frásögn frá útifund í London þar sem múslimar mótmæltu skrípamyndunum: "Rúmlega tvítugur námsmaður sótti útifund klæddur eins og sjálfsvígssprengjumaður. Hann var ekki handtekinn og sagði í viðtali við breska blaðið Sun í gær að klæðnaðurinn kynni að hafa verið ögrandi en það er ekki ólöglegt í þessu landi bætti hann við". Hér er hljóðupptaka af þessu.

Ég geri ráð fyrir að aðstandendur Spegilsins hafi ekki haft betri upplýsingar, hafi ekki vitað að þetta var dópsali sem selur kókaín og heróín og er einmitt núna að afplána fangelsisdóm út af glæpum sínum. En vonandi leiðrétta þeir á Speglinum í dag frásögn sína af "námsmanninum" unga og lögvísa sem hafði svo gaman af því að ganga ögrandi klæddur á almannafæri. Hér eru tvær greinar sem segja hvaða maður þessi "námsmaður" var, þessi svokallaði námsmaður heitir Omar Khayam, er 22 ára frá Bedford, hann er dæmdur fíkniefnasali sem byrjaði að afplán 2002 og var látinn laus á reynslulausn eftir að hafa afplánað helming dómsins. Hann braut skilorðið og hefur verið stungið inn aftur:
Suicide bomb yob nicked
Protester is returned to prison

Við erum öll Danir núna en þeir sem núna ráðast tjáningarfrelsi okkar - tjáningarfrelsi sem er eins heilagt gildi í menningu sumra okkar eins og myndleysi spámannsins í múslimalöndum - þeir eru ekki allir sauðmeinlaus grey, þeir eru ekki allir námsmenn í ögrandi fötum.

Við skulum þekkja úlfinn þegar við sjáum hann en ekki endilega smíða með orðum okkar og hugsunum utan um hann sauðagæru vegna þess að við viljum að hann sé meinlaus. Annar kaflinn af bóksalanum í Kabúl endar á þessum orðum, sviðið er eftir 11. september, eftir að ríki talibana féll:

"Morgun einn stóð hann í búð sinni með glas af sjóðheitu tei og sá að Kabúl hafði vaknað til lífsins. á meðan hann lagði á ráðin um það hvernig hann gæti látið draum sinn rætast hugaði hann um setningu eftir uppáhaldskáld sitt, Ferdusi: "Til þess að lánið leiki við þig þarftu stundum að vera úlfur, stundum lamb."
Nú er mál til komið að vera úlfur, hugsaði Sultan."
Villandi og rangar fréttir á Íslandi og bóksalinn í Kabúl

Ég tók áðan púls á umfjöllun íslenskra fjölmiðla um teiknimyndastríðið. Skoðaði umfjöllun á NFS og Víðsjá RÚV í gærkvöldi. Það stuðar mig hvað fréttamennskan er grunn og beinlínis villandi. Það er gott að fá fréttirnar á íslensku en ég veit samt ekki hvort það er þess virði að hlusta á íslenskar fréttir um erlend málefni. Það er miklu fylltri upplýsingar sem maður fær með að lesa fréttir og fréttaskýringar á wikipedia, BBC, fylgjast með bloggstraum um málið á Technorati og lesa blogg þekktra stjórnmála/blaðamannabloggara.

Svo stuðar það mig óendanlega að í báðum þessum fréttaskotum sem ég horfi á áðan þá voru villandi upplýsingar og framsetningu og hinn hættulegi hálfsannleikur sem sagður er í fréttaskotum sem þurfa að vera krassandi og myndræn, taka aðeins nokkrar sekúndur í spilum og hafa einhvers konar fjölmiðlahlutleysi, þessa sjónhvelfingu um að frásögnin sé hlutlaus.

Í myndbandinu á NFS þá var sögð mikil æsingafrétt með fókusinn á fánabrennandi skríl sem hélt á lofti háðsspjöldum með myndum af danska forsætisráðherranum. Svo voru birtar myndir frá fundi þjóðernissinna í Danmörku og svo fréttamaður talaði undir eins og það væri allt að verða vitlaust í múgæsingu líka í Danmörku og þetta væri sambærilegt. Mér vitanlega var fundur í Danmörku sauðmeinlaus og þjóðernissinnar kveðnir í kútinn. Engar brennur eða skemmdir á eignum fóru fram.

Svo var í Víðsjá viðtal í gær við menningarfræðing sem búsettur er í Danmörku og hún sagði frá þessari miklu reiði múslima í Danmörku og að hópur strangtrúaðra múslima í Danmörku sendi fulltrúar 27 múslimahópa til Arabalanda. Hún sagði hins vegar ekki frá því að það hefur komið í ljós að málflutningur þessara sendinefndar og reyndar tilurð hennar einkenndist af lygum og rangfærslum, sjá greinarnar Labans mange løgne
og Abu Laban lever af hadet og Vennerne er ikke Allahs bedste børn. Ég horfði á föstudagsbænastund á Netinu hjá þessum iman Abu Laban. Þetta er ofstækismaður sem hefur unnið leynt og ljóst gegn dönskum hagsmunum með rangfærslum og lygum og talað tveim tungum. Hann virðist vilja fá sem mesta athygli og skapa sem mesta sundrung. Hann mun ekki hafa ríkisborgararétt í Danmörku og ég skil ekki hvers vegna Danir reka hann ekki úr landi fyrir landráð.

Annars fletti ég aftur upp í bókinni Bóksalinn í Kabúl eftir norska rithöfundinn og blaðamanninn Åsne Seierstad. Það er sönn frásögn af lífi fjölskyldu bóksala sem hún dvaldi hjá í Kabúl. Bóksalinn taldi að bókin yrði hetjusaga um hann sjálfan en þar skjátlaðist honum. Fyrsta eintakið af bókinni barst til Íslands um svipað leyti og Magnús fór til Kabúl og ég lauk við að lesa bókinni einmitt daginn sem hann fór.

Bónorðið
Mig minnti að bókin byrjaði á því að bóksalinn rifi miða af myndum í bókum. Það var misminni. Bókin hefst með kaflanum Bónorðið og lýsir því þegar bóksalinn ákveður að fá sér aðra konu og hann reynir að fá móður sína og systur og föðursystur til að semja um það fyrir sig. Það er afganskur siður að ættingjar skoði stúlku fyrir giftingu, athugi hvort hún sé nógu dugleg og vel upp alin. Allar konurnar í fjölskyldu bóksalans hafna því að aðstoða hann og segja honum frá því að þetta sé smán fyrir konu hans. Bóksalinn heldur fast við ráðagerð sína og talar sínu máli sjálfur, fer til fátækra ættingja og býður verð fyrir dóttur þeirra. Foreldrarnir taka honum vel og eru ánægðir með verðið sem hann greiðir fyrir 16 ára dóttur þeirra sem er ein kýr, nokkrar kindur, 150 kíló af matarólíu og 300 kíló af hrísgrjónum og um peningar, um 35 þúsund íslenskar krónur. Kaflinn lýsir valdaleysi kvenna og vansæld beggja kvenna hans, leiða ungu stúlkunnar sem giftist til að foreldrar hennar fái fé og geti keypt konur fyrir bræður sína og til að hún hækki í þjóðfélagsstiganum og örvæntingu og smán fyrstu konu hans og samlíðan allra kvenna í fjölskyldunni með henni.

Bókabrenna
Það er hins vegar annar kaflinn sem fjallar um bækurnar, kaflinn heitir Bókabrenna og lýsir fyrst hvernig heittrúarlögregla Talíbana kemur í nóvember 1999 í bókabúðina hjá bóksalanum Sultan Khan og leitar að bókum með myndum af lifandi verum, hvort sem það eru menn eða dýr til að kasta á bál. Hér er brot úr bókinni:

En þennan dag höfðu þeir aðeins áhuga á myndum. Þeir litu fram hjá textum trúvillinga þótt þeir væru beint fyrir framan nefið á þeim. Hermennirnir voru ólæsir og gátu ekki gert greinarmun á rétttrúnaðarritum talibana og ritum villutrúarmanna. En þeir þekktu myndir frá bókstöfum og lifandi verur frá dauðum. Lokst var ekkert nema askan eftir, hún fauk í burtu og blandaðist skítnum og rykinu á götum Kabúl og í skólpræsunum. Eftir stóð bóksalinn, sem hafði verið rændur nokkrum af sínum kærustu bókum, í umsjá hermanna talíbana sem hentu honum inn í bíl. Hermennirnir lokuðu versluninni og innsigluðu og Sultan var settur í fangelsi fyrir andmúslimska hegðun.

Í öðrum kaflanum er rakin sagan af hvernig bóksalinn selur þeim sem eru við stjórn hverju sinni bækur og lendir í fangelsi öðru hvoru fyrir það sem stjórnvöldum hvers tíma finnst glæpur, á kommúnistatímanum fyrir kapítalíska hegðun, á talibanatíma fyrir óguðleg rit og hvernig bóksalinn fær smám saman meiri áhuga á afganskri menningu og horfir á hvernig sagan er afmáð af þeim sem eru við völd hverju sinni. Bóksalinn semur sig að aðstæðum, fyrst tússar hann yfir allar myndir sem hann finnur í bókum en svo hugkvæmist honum að líma nafnspjöldin sín yfir myndirnar með von um að geta tekið þau af einhvern tíma seinna.
Svo kom 11. september.

6.2.06

Látið Ali Mohaqiq Nasab lausan!

Margir bloggarar birta skrípamyndirnar og taka sumir eins og Tim Blair því ákaflega illa að fá fyrirmæli frá múslimaklerum um hvað megi segja og birta. Ég hef lesið heilmikið um trúarbrögð og siði Múslima frá því að þetta skrípóstríð byrjaði og berst við eigin viðhorf eða fordóma, ég finn að óbeit mín á trúarofstæki og skrílslátum vex dag frá degi.


mynd frá yahoo news

Ég reyni eins og ég get að beina hugsun minni í þann farveg að alhæfa ekki um hugsunarhátt múslima út frá þeim fréttum sem núna eru birtar í vestrænum fjölmiðlum og hugsa til manna eins og Ali Mohaqiq Nasab sem núna situr í fangelsi í Afganistan fyrir guðlast. Hann var ritstjóri í blaði sem barðist fyrir kvenréttindum og hann leyfði sér að gagnrýna Sharia lögin sem kveða á um að hver sem gengur af trúnni skuli drepinn, lauslæti varði 100 svipuhöggum og þessi lög innsigla líka réttleysi kvenna í heimi múslimskra bókstafstrúarmanna.
Sjá nánar í greinninn Women's Rights Editor Jailed in Afghanistan Faces Increasing Threats


Einn ljótasti bletturinn á því skipulagi og þeim hugsunarhátti sem strangtrúarríki Múslima fara eftir er gífurleg kvenfyrirlitning, kvennakúgun og réttleysi kvenna sem innsiglað er og réttlætt með lögum. Þetta var hvað mest áberandi í Afganistan á Talibanatímanum. Það er reyndar ekkert nýtt að trúarbrögð og goðsagnir séu notaðar til að staðfesta og réttlæta kúgun, það er einkenni í mörgum trúarbrögðum m.a. hefur hörundslitur verið notaður til að réttlæta kúgun, sjá þessa grein The Darkness of Racism in Muslim Culture sem segir frá hvernig goðsögnin um Ham var og er notuð til að réttlæta þrælahald og kúgun svartra.

Múslimaklerkar í vestrænum ríkjum prédika sumir sams konar skipulag og Sharia lögin. Hér er brot úr ræðu múslimaklerks í Ástralíu:

Every minute in the world a woman is raped, and she has no one to blame but herself, for she has displayed her beauty to the whole world," Sheikh Feiz Muhammad told a packed public meeting in the Bankstown Town Hall last month. "Strapless, backless, sleeveless - they are nothing but satanical. Mini-skirts, tight jeans - all this to tease men and to appeal to (their) carnal nature."
There was pressure on Muslim women to unveil, the sheikh said, and this was because "they want you to be available for their gross, disgusting, filthy abomination! They want you to be a sex symbol!" The woman who wore the hijab was hiding her beauty from the eyes of "lustful, hungry wolves", he said.


Þetta er úr greininni Religious extremists an insult to our values 14. apríl 2005
Dapurlegar fréttir berast núna frá Afganistan. Þar mun lögregla hafa skotið á mótmælendur, sjá BBC pistilinn Four killed in Cartoon protest. Það er líklegt til að það mun valda ennþá meiri róstum í landinu.

Guðlast dagsins er þessi fíni íslenski vefur um guðlast: Guðlast - Glæpur án fórnarlambs

Technorati tags Muhammed cartoons, Muslim cartoon,Danish cartoon, blasphemy

4.2.06

Stungið niður stílvopniHér er ein af mörgum myndum sem Dagbladet birti 4. febrúar af danska forsætisráðherranum. og myndin hérna fyrir neðan birtist í International Herald Tribune.


Stríðið á milli austurs og vestur tekur á sig nýja skrípamynd á hverjum degi, það er hart barist og pressan gula, bláa og rauða lýsir fætingnum og framvindunni. Bókstafstrúarmúslimar berjast með eldspýtum og kveikja bál hér og þar, mjög myndrænt og appelsínugult og Danirnir berjast með tússpennum og teikna fleiri skrípamyndir og það toppar nú eiginlega brennurnar. Það veldur auk heldur engum skemmdum á eignum eða áverkum á fólki. Ég held með Dönum, mér finnst skopteikningar flottara vopn en eldspýtur. Svo finnst mér tjáningarfrelsið miklu heilagara en boð og bönn einhvers staðar út í heim á umfjöllun um Múhameð eða Jesú eða Búdda eða hvaða guðsmann sem er. En er gott að það verða ekki kóranabrennur í Kaupmannahöfn, við misstum nóg af bókum þar í brunanum þar á sínum tíma. Ég held líka að það sé stílbrot hjá Dönum að berjast með eldspýtum og kveikja í, látum hina um það. Það er flottara að berjast með pennanum, tússpennanum, vefskrifum, teikningum og röddinni. Reynda sá ég í Politiken að það var svolítið barist með röddum, það var einhver öskurkór sem alveg yfirgnæfði fund hjá einhverri danskri nýnasistagrúbbu sem heitir Dansk Front og það gekk víst bara vel enda trekkti grúbban ekki mikið, bara um þrjátíu manns. En einn viðstaddra var óhress með afskipti lögreglu eftir að hafa dröslast í hasarinn upp í Hillerup sem mér skilst að sé ekki fjörugasta plássið í Kaupmannahöfn, hann sagði: " Er det ytringsfrihed at lade folk stå og råbe i fem timer på en kold parkeringsplads i fucking Hillerød, når der er nazister i byen" en meira um hasarinn má sjá í Masseanholdelser i Hillerød . Svo eru hófsamari múslímar í Danmörku búnir að stofna sinn eigin félagsskap, þeir vilja ekki að þessir trúarhreyfing Múslima sem hingað til hefur talið sig sjálfskipaðan talsmann Múslima í Danmörku tali fyrir þá lengur enda hefur augljóslega verið markmið þeirrar hreyfingar að magna úlfúð fremur en að bera klæði á vopnin (hmmm... hvernig ætli virki að bera klæði á vopn sem eru tússpennar og eldspýtur?). En það var náttúrulega líka tilgangur með birtingu teikninganna að ögra og móðga, það er alveg öruggt og vissulega eru Múslimar í Danmörku móðgaðir en þeir skilja líka að þeir eru hinir stóru taparar í þessu stríði tússpennans og eldspýtunnar.

Það virðist brennuæði hafa runnið á bókstafstrúarmenn í Sýrlandi þegar fréttir bárust með GSM að Danir ætluðu að halda Kóranabrennu á Ráðhústorginu. Þeir brendu niður norrænu sendiráðin.

3.2.06

Um Júðana og lygar þeirra

Fordómar og ofstæki í heilum samfélögum eru ekki eldur sem blossar upp á einni nóttu, það er langt ferli þar sem ótal atvik búa til óvininn. Það er heillandi að skoða líf og samtíma Martin Luther , guðsmannsins sem íslensk ríkistrú er kennd við, guðsmannsins sem skrifaði stóran hluta af öllum ritum sem bárust um Evrópu á tímum þegar prentlistin breyttu landslagi miðlunar, guðsmannsins sem ljáði kóngum réttlætingu og blessun við að sölsa undir sig eignir páfadóms í nafni hins nýja siðar.

Martin Luther gagnrýndi sölu aflátsbréfa í kirkjunni og límdi skrif sín á kirkjudyr og flestir telja að hann hafi líka sent biskupi skrifin. Skrif Martins voru prentuð og hin nýja prenttækni varð til þess að tveim vikum seinna hafði boðskapur hans borist um allt Þýskaland og tveim mánuðum seinna um alla Evrópu.

Martin Luther var merkilegur maður á miklum umbrotatímum og boðskapur hans hafði mikil áhrif - ef til vill vegna þess að hann orðaði það sem margir ráðamenn og menntamenn voru að hugsa á þessum tímum og ef til vill vegna þess að hin nýja miðlunartækni hlaut að brjóta upp og afhjúpa það valdasamfélag sem hann réðist gegn.

Það er erfitt að sópa sumu í ferli Martins Luther undir teppið og teikna upp mynd af honum sem mildum og umburðarlyndum guðsmanni sem barðist fyrir kjörum hinnar hrjáðu og smáðu. Luther var maður kónganna, hinnar veraldlegu yfirstéttar. Hann réðist harkalega gegn bændum og hann réðst harkalega gegn Gyðingum. En harka hans og fordómar gagnvart Gyðingum vaxa með tímanum, árið 1523 þá talar hann um Gyðinga af umburðarlyndi, þetta séu guðsbörn sem beina þurfi rétta veginn. En árið 1543 þá kveður við annan tón þá skrifar hann kver um Júðana og lygar þeirra þar sem hann hvetur til að musteri þeirra séu brennd, trúarrit þeirra tekin af þeim og Gyðingum bannað að iðka trú sína.

Heimsmyndin breytist vissulega á þessu hálfa árþúsundi frá því að orð Luthers bárust fyrst um Evrópu, frá þeim tímum þegar heimskortið breyttist í stjörnukerfið Gutenberg Galaxy og heimsmyndin er líka að breytast í dag. Við lifum á tímum innsprengingar og á tíma þar sem jörðin er að fletjast út, hún er ekki lengur kúla, hvað þá kúla í einhverju sólkerfi himnanna. Hin nýja heimsmynd segir að jörðin sé flöt en ég held að það sé ekki rétt.

Ég held að landakortið fyrir hina nýju heimsmynd hafi ennþá ekki verið teiknað upp. En það verður örugglega ekki kort sem passar fyrir hina gömlu miðla, það verður ekki auðvelt að lýsa því landakorti í hinum tvívíða og þrönga heimi prents og prenthugsunarhátts.

2.2.06

Í stuði með Guði - Jesúdúkkulísur

Þessi skrípamyndasena sem nú er í gangi sýnir líka skrípamynd af mörgum fjölmiðlum okkar og afhjúpar hvað stjórnmálamenn eru lítið færir til að taka á svona deilum. Annars vegar þá magna fjölmiðlar upp deiluna með því að birta okkur mjög einhliða mynd af andstæðingnum, sýna fólk í múslímalöndum sem vitstola æstan múg og hins vegar forðast þeir eins og heitan eldinn að móðga einhverja ákveðna hópa. Mér finnst þessi setning í grein á BBC vera furðuleg:

"Denmark's reputation as an easy-going, consensual nation has been severely tarnished in recent days. All the Danes can do now is hope the repeated apologies for the offence caused, by both the government and the newspaper, will end this unseemly row."

En guðlast dagsins er þessi jesúdúkkulísa Mér finnst þetta yfir strikið og sé alveg að það stuði einhverjar sannkristnar manneskjur. En ég sé ekki að það sé neinn drepinn með því guðlasti eða það sé á neinn hátt hvatt til ofbeldis.

1.2.06

Meira skrípó og guðlast

Mér finnst hún nokkuð góð myndin sem birtist í franska blaðinu af Múhameð og Guði og Búddha og einhverjum guðsmanni sem ég veit ekki hver er, hvorki sýnist mér það Óðinn eða Freyja. Textinn er eitthvað á þá leið það hafi verið gert grín að öllum guðunum á skopmyndum. Það er auðvitað sama sagan, karlveldið í algleymingi, bara karlguðir og engin Freyja en hún hefði prýtt mikið myndina.

En hér er smávegis af guðlasti af Brennunjálssögu:

Hjalti Skeggjason kvað kviðling þenna:
Spari eg eigi goð geyja.
Grey þykir mér Freyja.
Æ mun annað tveggja
Óðinn grey eða Freyja.

Hjalti fór utan um sumarið og Gissur hvíti. En skip Þangbrands braut austur við Búlandsnes og hét skipið Vísundur. Þangbrandur fór allt vestur um sveitir. Steinunn kom í mót honum, móðir Skáld-Refs. Hún boðaði Þangbrandi heiðni og taldi lengi fyrir honum. Þangbrandur þagði meðan hún talaði en talaði lengi eftir og sneri því öllu er hún hafði mælt í villu.
"Hefir þú heyrt það," sagði hún, "er Þór bauð Kristi á hólm og þorði Kristur eigi að berjast við Þór?"
"Heyrt hefi eg," segir Þangbrandur, "að Þór var ekki nema mold og aska ef guð vildi eigi að hann lifði."
"Veist þú," segir hún, "hver brotið hefir skip þitt?"

Skrípóstríðið heldur áfram

crusad28Núna hefur franska dagblaðið France Soir gerst svo djarft að prenta Múhammeð skrípamyndirnar og bara það eitt er sérstakrar forsíðufréttar á BBC: France enters Muslim cartoon row sem er eins og allar þessar æsifréttir með myndum af kolbrjáluðum fánabrennandi og/eða öskrandi lýð. Þýska dagblaðið Die Welt hefur líka birt sumar myndirnar. Svolítið skrýtið að það sé frétt í sjálfu sér að birta myndirnar. Allir bloggarar sem eitthvað hafa fyrir að rýna í netumræðuna eru löngu búnir að sjá þessar myndir á fjölmörgum vefsvæðum og margir tengja í þær. Það er alveg útilokað að uppræta þessar myndir og dreifingu þeirra á netmiðlum.

Hér er m.a. Razib Rashedin bloggari í Bangladesh sem virðist vera múslimi að gagnrýna Dani og segir: "Denmark has established itself as the new frontier of Islamic hatred" en hann hefur samt hlaðið myndunum inn hjá sér enda ekki hægt að fjalla um þetta mál af skynsemi nema hafa séð gögn í málinu. Ég hugsa að bloggpistillinn hans Razib endurspegli miklu betur viðhorf fólks í múslimalöndum til skrípamyndamálsins heldur en fánabrennsluæsingamyndirnar sem við sjáum í BBC og hefðbundnu pressunni.

Núna eru öfgamenn í Danmörku að skipuleggja einhverja Kóranbrennu niðri við Ráðhúsið og ef af verður þá munu án efa birtast margar krassandi og litríkar kóranbrennumyndir í dagblöðum og sjónvarpi í múslimalöndum og það verður sú mynd sem almenningur þar fær af viðhorfi Vesturlandabúa til múslímamenningar. Það er örugglega ekki hægt að koma í veg fyrir að fólk brenni fána eða bækur en það er bara afhjúpar hvað grunn fjölmiðlun nútímans er að svona virtustu fjölmiðlar heims skuli gefa okkur svona yfirborðslega sýn á málið.

Besta umfjöllunin er í Wikipedia og þar kom fram að það var markvisst dreift röngum upplýsingum í múslimalöndum um þessar skrípamyndir, ég var búin að sjá á mörgum arabískum vefsvæðum var talað um einhverjar myndir þar sem Múhammed var teiknaður eins og grís og skyldi það ekki því engin mynd er svoleiðis en það kom fram í Wikipedia að það mun hafa verið til þannig mynd en sú mynd var aldrei birt í Jótlandspóstinum.