Villandi og rangar fréttir á Íslandi og bóksalinn í KabúlÉg tók áðan púls á umfjöllun íslenskra fjölmiðla um teiknimyndastríðið. Skoðaði umfjöllun á NFS og Víðsjá RÚV í gærkvöldi. Það stuðar mig hvað fréttamennskan er grunn og beinlínis villandi. Það er gott að fá fréttirnar á íslensku en ég veit samt ekki hvort það er þess virði að hlusta á íslenskar fréttir um erlend málefni. Það er miklu fylltri upplýsingar sem maður fær með að lesa fréttir og fréttaskýringar á wikipedia, BBC, fylgjast með bloggstraum um málið á Technorati og lesa blogg þekktra stjórnmála/blaðamannabloggara.
Svo stuðar það mig óendanlega að í báðum þessum fréttaskotum sem ég horfi á áðan þá voru villandi upplýsingar og framsetningu og hinn hættulegi hálfsannleikur sem sagður er í fréttaskotum sem þurfa að vera krassandi og myndræn, taka aðeins nokkrar sekúndur í spilum og hafa einhvers konar fjölmiðlahlutleysi, þessa sjónhvelfingu um að frásögnin sé hlutlaus.
Í myndbandinu á NFS þá var sögð mikil æsingafrétt með fókusinn á fánabrennandi skríl sem hélt á lofti háðsspjöldum með myndum af danska forsætisráðherranum. Svo voru birtar myndir frá fundi þjóðernissinna í Danmörku og svo fréttamaður talaði undir eins og það væri allt að verða vitlaust í múgæsingu líka í Danmörku og þetta væri sambærilegt. Mér vitanlega var fundur í Danmörku sauðmeinlaus og þjóðernissinnar kveðnir í kútinn. Engar brennur eða skemmdir á eignum fóru fram.
Svo var í Víðsjá viðtal í gær við menningarfræðing sem búsettur er í Danmörku og hún sagði frá þessari miklu reiði múslima í Danmörku og að hópur strangtrúaðra múslima í Danmörku sendi fulltrúar 27 múslimahópa til Arabalanda. Hún sagði hins vegar ekki frá því að það hefur komið í ljós að málflutningur þessara sendinefndar og reyndar tilurð hennar einkenndist af lygum og rangfærslum, sjá greinarnar
Labans mange løgneog
Abu Laban lever af hadet og
Vennerne er ikke Allahs bedste børn. Ég horfði á föstudagsbænastund á Netinu hjá þessum iman Abu Laban. Þetta er ofstækismaður sem hefur unnið leynt og ljóst gegn dönskum hagsmunum með rangfærslum og lygum og talað tveim tungum. Hann virðist vilja fá sem mesta athygli og skapa sem mesta sundrung. Hann mun ekki hafa ríkisborgararétt í Danmörku og ég skil ekki hvers vegna Danir reka hann ekki úr landi fyrir landráð.
Annars fletti ég aftur upp í bókinni
Bóksalinn í Kabúl eftir norska rithöfundinn og blaðamanninn Åsne Seierstad. Það er sönn frásögn af lífi fjölskyldu bóksala sem hún dvaldi hjá í Kabúl. Bóksalinn taldi að bókin yrði hetjusaga um hann sjálfan en þar skjátlaðist honum. Fyrsta eintakið af bókinni barst til Íslands um svipað leyti og
Magnús fór til Kabúl og ég lauk við að lesa bókinni einmitt daginn sem hann fór.
Bónorðið
Mig minnti að bókin byrjaði á því að bóksalinn rifi miða af myndum í bókum. Það var misminni. Bókin hefst með kaflanum Bónorðið og lýsir því þegar bóksalinn ákveður að fá sér aðra konu og hann reynir að fá móður sína og systur og föðursystur til að semja um það fyrir sig. Það er afganskur siður að ættingjar skoði stúlku fyrir giftingu, athugi hvort hún sé nógu dugleg og vel upp alin. Allar konurnar í fjölskyldu bóksalans hafna því að aðstoða hann og segja honum frá því að þetta sé smán fyrir konu hans. Bóksalinn heldur fast við ráðagerð sína og talar sínu máli sjálfur, fer til fátækra ættingja og býður verð fyrir dóttur þeirra. Foreldrarnir taka honum vel og eru ánægðir með verðið sem hann greiðir fyrir 16 ára dóttur þeirra sem er ein kýr, nokkrar kindur, 150 kíló af matarólíu og 300 kíló af hrísgrjónum og um peningar, um 35 þúsund íslenskar krónur. Kaflinn lýsir valdaleysi kvenna og vansæld beggja kvenna hans, leiða ungu stúlkunnar sem giftist til að foreldrar hennar fái fé og geti keypt konur fyrir bræður sína og til að hún hækki í þjóðfélagsstiganum og örvæntingu og smán fyrstu konu hans og samlíðan allra kvenna í fjölskyldunni með henni.
BókabrennaÞað er hins vegar annar kaflinn sem fjallar um bækurnar, kaflinn heitir Bókabrenna og lýsir fyrst hvernig heittrúarlögregla Talíbana kemur í nóvember 1999 í bókabúðina hjá bóksalanum Sultan Khan og leitar að bókum með myndum af lifandi verum, hvort sem það eru menn eða dýr til að kasta á bál. Hér er brot úr bókinni:
En þennan dag höfðu þeir aðeins áhuga á myndum. Þeir litu fram hjá textum trúvillinga þótt þeir væru beint fyrir framan nefið á þeim. Hermennirnir voru ólæsir og gátu ekki gert greinarmun á rétttrúnaðarritum talibana og ritum villutrúarmanna. En þeir þekktu myndir frá bókstöfum og lifandi verur frá dauðum. Lokst var ekkert nema askan eftir, hún fauk í burtu og blandaðist skítnum og rykinu á götum Kabúl og í skólpræsunum. Eftir stóð bóksalinn, sem hafði verið rændur nokkrum af sínum kærustu bókum, í umsjá hermanna talíbana sem hentu honum inn í bíl. Hermennirnir lokuðu versluninni og innsigluðu og Sultan var settur í fangelsi fyrir andmúslimska hegðun.
Í öðrum kaflanum er rakin sagan af hvernig bóksalinn selur þeim sem eru við stjórn hverju sinni bækur og lendir í fangelsi öðru hvoru fyrir það sem stjórnvöldum hvers tíma finnst glæpur, á kommúnistatímanum fyrir kapítalíska hegðun, á talibanatíma fyrir óguðleg rit og hvernig bóksalinn fær smám saman meiri áhuga á afganskri menningu og horfir á hvernig sagan er afmáð af þeim sem eru við völd hverju sinni. Bóksalinn semur sig að aðstæðum, fyrst tússar hann yfir allar myndir sem hann finnur í bókum en svo hugkvæmist honum að líma nafnspjöldin sín yfir myndirnar með von um að geta tekið þau af einhvern tíma seinna.
Svo kom 11. september.