16.3.06

Þurfum við Danir Kana?

Kanarnir ætla að fljúga burt á orustuþotum og þyrlum sínum á næstunni. Þetta var nú reyndar fyrirsjáanlegt, núna liggur átakalínan í heiminum ekki á sama stað og á dögum kalda stríðsins og þeir þurfa örugglega á þessum vígvélum að halda í einhverjum nýjum Asíustríðum. Þegar ég var barn að aldri þá hélt ég að þetta væri það sem íslensk stjórnmál snerust um - það skipti fátt meira máli um stjórnmálaskoðanir en hvort maður vildi herinn burt eða kjurt. Ég er líka alin upp við í að tvær aðalgöngur ársins sem allir áttu að fara í væru 17. júní skrúðgangan og Keflavíkurgangan.

En núna er sem sagt herinn að pakka saman og hvað þá? Hvað gerði herinn sem við þurfum núna að gera? Ég er að reyna að átta mig á því í gegnum ummæli stjórnmálamanna og mér virðist að eitt helsta verk hersins hafi verið að skaffa Íslendingum vinnu. Annað mikilvægt hlutverk var að hafa björgunarþyrlur til taks svo að núna þurfum við að bjarga okkur sjálf. Það virðist reyndar fátt benda til þess að það þurfi að vera herstöð á Íslandi með mörg þúsund manns í viðbragðsstöðu fyrir innrás úr lofti. Það má meira segja spá í hvort hér sé ekki öruggara ef hér er ekki herstöð eða mikil hernaðarumsvif á herflugvelli sem þannig gæti orðið táknrænt skotmark hryðjuverkamanna. Það er reyndar heldur ekki ástæða til að hafa neina ofurtrú á loftvarnarkerfi Bandaríkjamanna miðað við hvernig það réð við atburði eins og 11. september.

En hver er ógnin og hvað þarf að gera?
Ég heyri á stjórnmálamönnum að þeim finnst ógnin núna hryðjuverkaógn og að við þurfum meira að halla okkur til Evrópu. Ég er reyndar sammála því, ég hef fundið aftur mínar evrópsku rætur eftir að ég gerðist Dani, ekki danskur ríkisborgari heldur svona þátttakandi í því stórdanska samfélagi sem berst fyrir tjáningarfrelsi og gegn bókstafstrú og trúarofstæki, samfélagi sem hefur ekki landamæri eins og þjóðríkin heldur er bara til í vitund okkar. Svo mér líst bara vel á að hallast til Evrópu því mér finnst heimurinn vera að skiptast í fundamentalisma í austri og vestri. Já og kannski sérstaklega að horfa til samstarfs þjóða sem einnig eiga land að Norðurslóðum - Norðurlandanna, Kanada og Rússlands og Usa. En mér líst afar illa á að stórfjölda lögreglumönnum og löggæslu - ég held ekki að stríð verði unnin og friður tryggður með því að breyta Íslandi í eftirlits- og lögregluríki. Ég held að það sé miklu betra að leggja áherslu á þann vopnaburð sem felst í að stinga niður stílvopni - að skylmast með orðum, nú eða náttúrulega skopmyndum.

15.3.06

Vefskrípó
Hér er ég að gera mína fyrstu tilraun með vefskrípó kerfi. Ef allt virkar á teiknimyndin mín að birtast hér fyrir neðan.

14.3.06

Baráttudagur og bylgjur femínista

Það var dúndurfjör á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Yfir eitt hundrað femínistar af mörgum bylgjum femínismans á þessari öld og seinustu komu saman á baráttusamkomu Bríetar á Dubliners. Þarna voru Rauðsokkur og Úur og Bríetur og FÍ-félagar og kornungir femínistar sem örugglega eiga eftir að stofna enn eina hreyfinguna í framtíðinni. Hér er myndaalbúmið mitt með 24 myndum frá samkomunni, hér er sýningin.

Þrjár Rauðsokkur fagna 8.mars
Þrjár Rauðsokkur: Guðrún alþingiskona og skáldkonurnar Ingibjörg og Vilborg

Kolbrún, Drífa og ... xIMG_0101
Það voru mörg skemmtiatriði og ræður, Drífa flutti áhrifamikið ávarp um það mikla ofbeldi gagnvart konum í heiminum, ofbeldi sem hefur þá einkennilegu náttúru að það finnast mörg fórnarlömb og þolendur og verksummerki en gerendurnir eru ósýnilegir og það er eins og tabú að beina kastljósinu að þeim. Annars hef ég byrjað á því að reyna að skrá sögu og tilvist íslenskra kvenfrelsishreyfinga á Wikipedia með því að byrja á greinum þar um hreyfingar, stofnanir og einstaklinga eins og Ingibjörgu H. Bjarnason. Vonandi bæta einhverjir við greinarnar.

2.3.06

Sautján kallar og einn hvalur

Engilsaxneska útgáfan af alfræðiritinu Wikipedia náði stórmerkum áfanga í gær þegar greinasafnið fór yfir milljón þar. Íslenska Wikipedia á langt í land með það en það verður bráðum náð stórum áfanga á Íslandi þegar við náum tíu þúsund greinum.

Í hverjum mánuði þá er valin úrvalsgrein mánaðarins og núna í mars þá er það stórgóð grein um Vestmannaeyjar. En það er einn kafli í þeirri grein sem er eins og köld vatnsgusa, það er upptalningin á þekktum Vestmannaeyingum. Þar eru taldir upp sautján karlar og einn hvalur. Ég veit náttúrulega að Árni Johnsen er landsþekktur fyrir söng og að vera í hrekkjalómafélaginu og fyrir að smíða hátimruð hof og síðustu ár fyrir steinasöfnun og steinlistaverk og Keikó er auðvitað stórmerkur hvalur þó hann hafi ekki tollað við hérna og neitað að verða villtur aftur og viljað frekar synda til Noregs og daga þar uppi sem risavaxið baðstrandarleikfang fyrir þarlenda. Vestmannaeyingarnir 17 eru allir merkismenn og sumir landsþekktir eins og Sigmund skopmyndateiknari og uppfinningamaður.

Eitt aðalsmerki Wikipedia er hlutleysisreglan. Frásögn sem virðist við fyrstu sýn hlutlaus er það ekki þegar grannt er skoðað. Það getur ekki verið að það séu bara sautján kallar og einn hvalur þekktir Vestmanneyingar. Ég er ekki staðkunnug þarna en ég veit alla vega fyrir sjálfa mig þá er einn þekktasti Vestmanneyingurinn sem ég veit um hún Eygló Björnsdóttir. Hún hefur reyndar núna flust til Akureyrar svo ég veit nú ekki hvort hún kemur til greina á listann... hmmm.. hvað með Keikó... sveik hann okkur ekki og flutti til Noregs? Er hann ekki norskur hvalur?

Svo var ég að fletta upp Kristínu Ástgeirsdóttur á vef Alþingis en hún er dóttir Ása í Bæ sem er einn af sautján köllunum. Það kemur fram á vefnum að hún er fædd í Vestmanneyjum. Er hún ekki Vestmanneyingur? Hún er ein þekktasta kona á Íslandi og stórmerkileg kona fyrir afrek sín á sviði stjórnmála og félagsmála. Kristín er ein fárra sem hefur tekið þátt í öllum þremur hreyfingum femínisma á Íslandi, hún var leiðtogi í Rauðsokkuhreyfingunni, Kvennalistanum og Femínistafélagi Íslands.

Hér eru hersingin 17 + 1 úr Vestmannaeyjum
Ási í Bæ
Árni úr Eyjum
Oddgeir Kristjánsson
Binni í Gröf
Þorsteinn Víglundsson
Þorsteinn Jónsson
Sigfús M. Johnsen
Sigmund Johanson Baldvinsen
Guðlaugur Friðþórsson
Árni Johnsen
Árni Sigfússon
Guðjón Hjörleifsson
Lúðvík Bergvinsson
Snorri Óskarsson
Gísli Óskarsson
Páll Zóphóníasson
Keikó

1.3.06

Háfrónskan berst fyrir tilveru sinni

Núna berst háfrónskan fyrir tilveru sínni í þeirri sameiginlegu hugsun sem svífur yfir netvötnum á Wikipedia. Þar er núna atkvæðagreiðsla um hvort eigi að eyða út löngum pistli um háfrónskuna á Wikipedium margra þjóðlanda og þá á þeirri forsendu það þetta sé skrípilæti og rugl einhverra fáráðlinga sem vilji koma óorði á Wikipedíu eða eins og einn orðaði það: "Articles like these belittle the authenticity of Wikipedia....If they're notable crazies, then we should keep the page and ensure it shows them as crazies, a little like the Flat Earth Society page"

Ég hvet alla sem hafa einhverja skoðun á þessu að taka þátt í umræðunni og greiða sitt atkvæði. Það geta nú ekki nema þeir sem eru mæltir á íslensku haft fulla innsýn í þetta mál.

Ég æfi mig í háfrónskunni og kalla kengúru skyppill og krókódíl gjálkagálkn. Háfrónskan er ekki mikið töluð á Íslandi, þetta er tilbúið tungumál eins og esperantó og ætli höfundurinn tali það ekki bara einn og hann er ekki einu sinni íslenskur, sennilega skilur hann ekki íslensku. Hér er viðtal við hann í DV frá 30. janúar 1999 Höfundurinn sem núna kallar sig Timbur-Helga Hermannsson ætlar að setja á stofn hreintunguþing. Hann segir hugmyndina um háfrónsku sprottna frá Tolkien sem kallaði sitt mál High Elfish (Sindarin) Presturinn Pétur sem gerði pétrísku orðabókina sem vinsæl var í tækifærisgjafir um árið (dæmi um pétrísku: gráfíkja=ung kona með gömlum manni) er líka talinn forkólfur í háfrónsku hreyfingunni. Háfrónsk fræði eru dáldið svipuð þeim fræðum sem hann Bjarni frændi hefur stundað í rannsóknarstofunni Iðunni áratugum saman, hann gaf líka út fullt af svona skrýtnum blöðungum með undarlegum og listrænum myndum en komst því miður aldrei upp á lag með Netið og því missti heimurinn af bjarnísku hreyfingunni. Bjarni var líka alltaf með í sínum skrifum svona dularfull og gráglettin tákn fjandsamlega stórveldum Vesturlanda. En tungumál er dýrmætt þó að það sé tilbúið og byggt á geðveiki eða hugmyndalist eða sé einn stór brandari og þó enginn tali það. Ég get ekki að því gert en mér finnst þetta framtak háfrónunga drepfyndið og þessi nýyrðaskáldhúfa vera einkar klæðileg.

Hér er enski pistillinn um háfrónskuna: High Icelandic