Grín og alvara í stjórnmálabaráttu
Hugleiðingar parkeringar, farartæki og aksturslag í stjórnmálum
Háðfuglarnir á
rvik.blogspot.com fá mig til að brosa af annars frekar litlausri kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Reyndar er baráttan alls ekki litlaus hjá litlu framboðunum
Framsókn,
Vinstri Grænum og
Frjálslyndum en ég tek ekki ennþá eftir neinni kosningabaráttu hjá
Sjálfstæðisflokknum og
Samfylkingunni.Kannski þessi framboð telji að best sé að minna sem minnst á sig á meðan litlu framboðin hafa allt að vinna. Þetta breytist nú sennilega núna á lokasprettinum.
Hver eru baráttumálin?Ég er að spá í um hvað þessar kosningar snúast í ár - hver eru aðalmálin og hvernig skilur á milli framboða? Í Reykjavík eru stóru málin infrastrúktúrmál eins og staðsetning flugvallar og Sundabraut. En það virðist snúast fremur um leiðir heldur en markmið - allir vilja fá meira byggingarland miðsvæðis í Reykjavík og allir vilja betri samgöngur í Reykjavík. En kannski kristallast kosningamálin mest í því hvers konar þjónustu menn vilja niðurgreiða og fyrir hverja. Sjálfstæðismenn víða vilja lækka fasteignagjöld en aðrir svo sem Framsókn, Vinstri grænir og Samfylking vilja styrkja barnafjölskyldur t.d. með
styrk vegna umönnunar ungra barna, hafa gjaldfrjálsan leikskóla (samfylking og VG) og greiða niður
frístundir barna.
Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðu
Meira segja Sjálfstæðismenn
leggja núna áherslu á leikskólamálin, boða lækkun á gjaldskrá og ýmis framfaramál í leikskólum. Verður þar að segjast að batnandi flokki er best að lifa og er ekki annað en gott um það að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins áttað sig á því að þetta eru brýn mál - þetta rifjar hins vegar upp fyrir mér ömurlegan tíma þegar yngri dóttir mín var á leikskólaaldri og Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu í borginni fyrir tíma Reykjavíkurlistans. Þá var hrikalega búið að barnafólki og útilokað að fá nema hálfsdags leikskólapláss og það fyrst eftir margra ára biðlista - á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík eins og steingert tröll sem hafði dagað uppi, algjörlega blint á brýn samfélagsmál. Mig minnir að ein helstu kosningamálin hjá Sjálfstæðisflokknum árið sem hann tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum hafi verið að byggja og byggja glás af bílastæðahúsum. Þetta var táknrænt fyrir ástandið þá - í staðinn fyrir að greina vandamálin og fylgjast með kalli tímans þá parkeruðu Sjálfstæðismenn. Vonandi hefur langt tímabil í stjórnarandstöðu kennt þeim að hlusta á raddir borgarbúa og koma sér inn í 21. öldina.
Framfaraskeið í Reykjavík - Reykjavíkurlistinn
Það tímabil sem Reykjavíkurlistinn hefur verið við völd í Reykjavík hefur verið mikið framfaraskeið. Reykjavík hefur breyst í blómlega höfuðborg þar sem er gott að búa. Það var Reykjavíkurlistasamstarfið sem varð til að sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyrði þ.e. Kvennalistinn leið undir lok - eða öllu fremur rann inn í Samfylkinguna. En það er ekki hægt annað en fagna því hverju Kvennalistinn kom í verk inn í Reykjavíkurlistanum og ég stolt yfir þeim tveimur borgarstjórum í Reykjavík sem komu frá Kvennalistanum, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steinunni Valdísi og sem og af öllu því starfi sem Kvennalistakonur unnu í borgarstjórn. Það er engin eftirsjá í Kvennalistanum, það var flott að enda með því að komast til valda og að fá tækifæri til að móta stefnu og framfylgja henni í stærsta sveitarfélaginu og einu stærsta atvinnufyrirtæki á landinu.
Engan hefði grunað að allir flokkar væru nú árið 2006 með stefnu í fjölskyldumálum sem hefðu þótt týpiskar Kvennalistaáherslur á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum. En tími Reykjavíkurlistans virðist vera liðinn - það er sorglegt því samstarfið hefur gengið alveg ágætlega fyrir utan djúpstæðan ágreining sem varð um borgarstjóra þegar Ingibjörg Sólrún fór í framboð til alþingis. Bæði Kvennalistinn og Reykjavíkurlistinn voru frábær umbótaöfl en hjól tímans halda áfram að snúast og það er ekkert við því að gera þó hreyfingar deyi út. Upp úr svörðinum munu vaxa upp nýjar hreyfingar með nýjar áherslur.
Farartæki í kosningabaráttunni

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er í huga mínum tengdur við úrræðaleysi og bílastæðahús og kyrrstæða bíla þá hefur Framsókn verið í nokkrum hremmingum vegna Hummer bíls sem lánaður (eða leigður, ég veit ekki hvort) var í kosningabaráttuna. Gárungar í Framsóknarflokknum kalla núna hummerinn bömmerinn og hann hefur orðið viðfangsefni ýmis konar spés og gagnrýnis. Það hefði örugglega verið sniðugra fyrir Framsókn að hafa fararskjóta sem vekti upp öðru vísi hugrenningar, ég held að það hefði verið snjallt að tengja Framsókn meira við sveitina, það er nokkuð sama hvað það eru fáir bændur orðnir eftir í flokknum og væntanlega engir í Reykjavík, samt er uppruni Framsóknar alltaf sem bændaflokkur og táknmyndir fyrir flokkinn eru alltaf kýr og búkonur og sveitabúskapur. Mér finnst það reyndar stórfínt og finnst að það ætti bara að ýta undir þetta í ímyndarmálum, þetta er hvort sem er sterk ímynd fyrir. Þá hefði kannski verið meira viðeigandi að keyra um á traktor eða gömlum landrover eða einhver konar vinnubíl t.d. pallbíl - já til að undirstika að þetta væri stjórnmálaflokkur sem ynni í málunum.
Ég styð Framsóknarflokkinn, mér finnst frambjóðendur í efstu sætunum þau Björn Ingi, Óskar, Ásrún og Marsibil öll vera frábær í borgarmálin. Mér finnst reyndar líka þrælfínir frambjóðendur hjá öðrum flokkum, ekki síst frambjóðendurnir sem eru í öðru sæti á listunum ég hef mikla trú á Margréti Sverrisdóttur hjá Frjálslyndum, Árna Þór hjá Vinstri grænum, Steinunni Valdísi hjá Samfylkingunni og Hönnu Birnu hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er reyndar umhugsunarverk að það eru karlmenn í fyrsta sæti hjá öllum flokkum nema VG. Er það vegna þess að það var prófkjör í öllum flokkum nema VG en þar var ákveðið að Árni Þór væri í öðru sæti þó hann hefði afar farsæla reynslu í borgarstjórn og mesta reynslu í borgarstjórn til þess að kona væri í fyrsta sæti?
Ég fylgdist best með prófkjörinu í Framsóknarflokknum, þar börðust
Björn Ingi,
Óskar og
Anna um fyrsta sætið. Anna stóð sig mjög vel og lagði mjög mikið undir í prófkjörsbaráttu, hún hins vegar varð fyrir vonbrigðum með úrslitin og tók ekki sæti á listanum. Ég held að jafnvel þó að svona opin prófkjör nái að vekja athygli á stjórnmálaflokk þá fylgja þeim gífurleg útgjöld og vinna fyrir þá sem eru í framboði og það sem verra er að svoleiðis barátta getur sprengt gjár á milli frambjóðenda. Það er alla vega ekki konum til framdráttar í flokkum ef frambjóðendur eru valdir í svona prófkjörum.
Akstur Árborgarframbjóðandans

Í framhaldi af umræðu um parkeringar og bílategundir þá enda ég þennan pistil á aksturlagi. Einn frambjóðanda keyrði ölvaður á staur. Ég finn til með Eyþóri í Árborg sem núna hefur dregið sig út úr kosningabaráttunni vegna ölvunaraksturs. Vonandi tekst Eyþór vel að vinna úr sínum málum og vonandi á hann eins og aðrir stuðning vísan hjá samfélaginu þegar hann hefur tekið út sína refsingu og vonandi verður hann öflugur málsvari þess að stilla neyslu vímuefna í hóf. Fall hans er stórt og það hafa fáir sem teknir hafa verið við ölvunarakstur þurft að þola það að vera svona opinberlega afhjúpaðir. Eyþór var ein af skærustu stjörnum Sjálfstæðismanna og hans framboð var í bullandi siglingu. En vandamál Eyþórs er einn angi af því samfélagsmeini sem er hvað ömurlegast í íslensku samfélagi. Það er vímuefnaneysla.
LeiðréttingMér var bent á það var prófkjör hjá Vinstri Grænum. Borgarfulltrúar þeirra voru Árni Þór og Björk Vilhelmsdóttir. Þau hafa bæði staðið sig vel og eru vinsæl meðal borgarbúa. Þau halda bæði áfram í baráttunni en með sitt hverjum hætti. Árni Þór var oddviti Vinstri Grænna en það kom á óvart að hann bauð sig fram í annað sæti og skv. reglum VG þá er fléttulisti karla og kvenna í efstu sætunum. Björk Vilhelms tók ekki þátt í prófkjörinu og fór úr Vinstri Grænum yfir í Samfylkinguna og er í 4. sæti á lista þar. Björk mun hafa verið óánægð með að VG voru það stjórnmálaafl sem lagði kapp á að splundra Reykjavíkurlistanum. Í Morgunblaðinu 1. september stendur þetta um prófkjör Vinstri Grænna og ákvörðun Árna Þórs:
"Ákvörðun Árna Þórs Sigurðssonar, sem hann kynnti sl. þriðjudag, um að gefa kost á sér í annað sæti á lista flokksins kom mörgum á óvart og má ráða af samtölum við VG-félaga að mikil óvissa er uppi um hverjir muni sækjast eftir efsta sætinu og leiða listann í vor. Árni Þór hefur verið oddviti VG í borgarstjórn og nýtur víðtæks stuðnings. Er talið að ganga megi út frá því vísu að hann verði valinn í það sæti sem hann sækist eftir í forvalinu. Boðinn verður fram svonefndur fléttulisti fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor þar sem konur og karlar skipa sætin á víxl. Má því að öllum líkindum ganga út frá því að kona muni skipa fyrsta sæti á lista vinstri grænna í vor."Svandís formaður VGR skipar fyrsta sæti hjá Vinstri Grænum. Það er flott hjá VG að vera með eitt framboða með konu í fyrsta sæti og það er umhugsunarvert að það gerist vegna þess Árni Þór sem verið hafði oddviti listans ákveður sérstaklega að sækjast ekki eftir fyrsta sætinu og eftirláta það konu. Það var hins vegar ekki flott hjá VG að hamast eins og ólmir við að sundra Reykjavíkurlistanum.