29.5.06

Listræn form í náttúrunni

Lifandi verur og lifandi vefir taka á sig falleg form ef maður skoðar þær frá ákveðnu sjónarhorni - eða býr til einhvers konar punkta og tengslakerfi til að lýsa verunni/vefnum. Hér til vinstri en mynd af blogginu mínu Metamorphoses þann 28 maí 2006. Sum kerfi eru ósýnileg augum okkar en við getum skoðað þau gegnum einhvers konar tækni og lýst þeim með táknrófi.

Einn nördinn hefur búið til skemmtilegt kerfi til tjá vefsíður á myndrænan hátt þannig að tengsl vefsins við aðra vefi sjáist líka. Mér finnst gaman af svona föndri og það finnst mörgum Flickr notendum líka, það eru komnar meira en 400 tengslamyndir af vefsíðum á Flicr. Þessar venslamyndir eru eins og blóm eða verur - eins og eitthvað lifandi. Það væri flott ef hægt væri að búa til vensla- eða ferlamyndir af ýmsu í lífinu. Mig hefur oft langað til að sjá GPS kort yfir ferðir mínar gegnum lífið, hvar ég hef búið og hvar ég hef unnið - ef til vill kemur eitthvað mynstur í ljós - mynstur sem ég sé ekki núna - ef til vill hringsólum við alltaf í kringum einhverja miðju. Ef til vill byggjast borgir alltaf upp á sama hátt eða eftir sama mynstri eða ferli.

Annars minna þessar tengslamyndir af vefsíðum mig á myndirnar í bókinni Kunstformen der Natur eftir Ernst Haeckel. Ernst þessi skoðaði lífsferla og þróun og hélt því fram að þroskaferill lífveru væri eins og þróunarferlið sem tegundin hefur gengið í gegnum og að kynþættir þroskuðust eins og einstaklingar innan kynþátta - þannig væru sumir kynþættir þroskaðri og æðri en aðrir. Þessi kenning var hent á lofti af Nasistum og varð hluti af hugmyndakerfi þeirra. Ernst Haeckel er þekktur fyrir orðin: "Politics is applied biology".

26.5.06

Að toppa á réttum tíma

Ekki hefur Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin sett mikinn lit á þessa kosningabaráttu, ég hef nú lítið séð til Sjálfstæðisflokksins nema einhverjar óljósar auglýsingar þar sem flokkurinn er núna í bleikingarleik og nýja ímyndin er að þetta sé félagshyggjuflokkur sem hlúi sérstaklega að öldruðum. Samfylkingin er nú ekki á neinu sérstöku flugi, Dagur eins og biluð grammófónplata sem segir í sífellu að Samfylkingin vilji vera kjölfestan í nýjum meirihluta og svo lætur hann Vilhjálm etja sér út í kappræður um hvort hann ætli að rukka fyrir bílastæði. Ég get nú ekki alveg séð dagsbirtuna né það sem Hallgrímur Helgason segir að sé hip og kúl við Samfylkinguna, Hallgrími er eignað slagorðið "Frekar Dagur en Gærdagur" og vissulega eru dagheimili flottari en róluvellir en er ekki dáldil kyrrstaða í því þegar heitasti ágreiningurinn í kosningabaráttu tveggja stærstu fylkinganna er eitthvað útfærsla á því hvar og hvernig menn megi parkera?

Ef það væru ekki litlu flokkarnir Framsókn, Vinstri-Grænir og Frjálslyndir þá væri þetta arfaleiðinleg kosningabarátta. Það er langmest að gerast hjá þessum fylkingum og langsnaggaralegast og skýrast hvað þær standa fyrir. Núna virðist staðan vera þannig samkvæmt skoðanakönnunum Gallup að annað hvort fær Sjálfstæðisflokkurinn átta fulltrúa og hreinan meirihluta eða Framsókn kemur inn manni og hindrar þannig meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

Mér finnst það sínu betri kostur að Framsókn komi inn manni í borgarstjórn og barátta Framsóknar hefur verið heiðarleg og skýr og efsti fulltrúinn þar Björn Ingi staðið sig vel alls staðar. Í einu fjölmiðlaviðtali sagði Dagur Eggerts að stjórnmálabaráttan gengi út á að toppa á réttum tíma - og þá væntanlega á kjördag - inn í kjörklefanum. Töluvert stór hluti kjósenda mun ákveða sig þar. Ég vona alla vega að Framsókn nái inn manni, það getur ekki verið betra fyrir Reykvíkinga að hafa hér svartbláan meirihluta sem mun kasta bleiku felulitaskikkjunni strax eftir kosningar. Það er rétt að rifja upp hvernig var fyrir síðustu kosningar. Ég skrifaði þetta á blogg eftir kosningarnar 2002 um skrif harðlínu frjálshyggjunagga og ungra Sjálfstæðismanna:

Einkadansinn dunar
Ég held svo sannarlega að það þurfi að setja kynjagleraugu á sig fyrir kosningar en það er víst betra að hafa þau gleraugu alltaf uppi því það er ekki trúverðugt ef stjórnmálaöfl hafa bara áhuga á mjúku málunum rétt fyrir kosningar og vakna svo upp hardcore daginn eftir kosningar og vilja klámtán Reykjavík áfram. Svona eins og daginn fyrir kosningar 24. maí birtist þar málefnaleg og alvarleg ádeila á andriki.is um biðlista á leikskólum í Reykjavík en strax eftir kosningar eru skríbentar blaðsins búnir að fella blæjuna og vilja núna ólmir einkadans. Þeir segja: "Svo lengi sem dansari og áhorfandi ganga fúsir og frjálsir til leiks þá er það beinlínis skylda stjórnvalda að blanda sér ekki í leikinn."


Mér finnst reyndar frekar leiðinlegt hvað kosningabaráttan gengur mikið út á kannanir, vonandi verða það ekki kannanir sem búa til úrslitin. Það má reyndar minna á að það var könnun sem á sínum tíma bjó til Reykjavíkurlistann. Anna Kristinsdóttir hefur bent á að það er skynsamlegt að setja lög um að ekki megi birta skoðanakannanir síðustu daga fyrir kosningar. Ég vona svo sannarlega að stjórnmál á Íslandi í dag snúist samt um annað og meira en toppa á réttum tíma og rífast um parkeringar.

24.5.06

Hundrað dollara fartölvan

laptop-orange-rotate
Í gær var kynnt fyrsta starfshæfa $100 fartölvan en 17. nóvember næstkomandi verður kynnt næsta skref, hún verður þá tilbúin í framleiðslu. Þetta er námstæki og verkfæri sem verður sérstaklega sniðið fyrir börn og unglinga í skólum. Þetta er feikispennandi verkefni en aðalmarkhópurinn er börn í þróunarlöndum. Markmiðið er ein fartölva á hvert barn. Það er Nicolas Necroponte sem er driffjöður í þessu verkefni, hann hefur mikið skrifað um skólastarf í þekkingarsamfélagi, ég fann vefpistill sem ég skrifaði árið 1998 um hugmyndir Negroponte.

En núna seinustu ár hefur Necroponte einbeitt sér að ódýru fartölvunni. Hér er upptaka af fyrirlestri Necroponte (realmedia) nýlega. Hér eru tæknilegar upplýsingar um fartölvuna og fedora hugbúnaðinn sem hannaður er fyrir hana. Fedora er opinn hugbúnaður fyrir framsetningu og vinnslu á stafrænu efni, allt í Fedora er sett fram eins og vefþjónusta.

19.5.06

GOD 2.0 - trúarbrögð nýrra tíma

Sniðug hugmynd að setja upp "open source" trúarbrögð en binda sig ekki við niðurnjörvuð og óbreytanleg mörg þúsund ára skrif einhverra karla. Bæði biblían og kóraninn eru tákn hins lokaða prentheims - bækur sem tilheyra hinum ritstýrða merkingarheimi þar sem einhverjir fáir hafa valið sig sem sérstaka sendiboða og túlkendur milli Guðs og manna. Ég var að lesa greinina New-time religion og umræðuna um hana á Digg.com þar sem sköpunarsagan er endurrituð í kóða:
?
$CreateDate = strtotime(0);
$SawThatItWas = (light == true) ? "Good" : "Bad";
include("seas");
include("heavens");
require_once("birds");
require_once("fish_in_sea");
$mammal => "Human";
rest(86400);
?
Svo er Bíblían borin saman við opin hugbúnað og kemur ekki allt of vel út:
"Open source means you can add things to it, and fix the parts that are broken. Unless you're an eccumenical council, the Bible isn't really very much like open source. You're sort of stuck with the compiled version your particular leader hands you."

Það er ákall frá leitandi sálum meðal linuxa :
"Give me the source code so I can compile my own religion. "

En það eru þegar komin upp nokkur open source trúarbrögð. Mér líst bara nokkuð vel á yoism sem er hægt að kynna sér hérna á bara 30 sekúndum og ef manni sýnist svo þá er hægt annað hvort að taka þátt í að skrifa trúarrit yoinista á wiki nú eða bara búa til sín eigin trúarbrögð. Þetta er svo fyndið sumt að það jaðrar við guðlast. En svona "open source" í trúarbrögðum er alls ekki slæm hugmynd. Ég hugsa að ég væri ekki eins fráhverf því að nota Biblíuna sem mitt leiðarstef í lífinu ef ég gæti fyrst tekið þátt í því í samvinnu við aðra að leiðrétta og strika út það sem mér finnst tómt bull nú og svo náttúrulega skrifa inn í Biblíuna nýja kafla sem sárlega vantar.

18.5.06

Bloggandi borgarstjórnarkandidatar

Ég hef undanfarnar kosningar jafnan tekið púlsinn á vefnotkun í stjórnmálabaráttunni og reynt að spá í hvort eða hvernig vefurinn og netumræðan skipti máli. Ég held að ennþá skipti Internetið ekki miklu máli varðandi úrslit kosninga - það eru ennþá of fáir sem nota Netið sem sinn aðalmiðill til að fylgjast með og mynda sér skoðun á þjóðfélagsmálum. Það mun hins vegar breytast með tímanum. Ég held að flestir stjórnmálamenn hafi ekki ennþá náð tökum á þessum nýja miðli - nýr miðill kallar á ný vinnubrögð og annars konar samband við lesendur/hlustendur/aðdáendur. Það er ekki neitt sérstaklega sniðugt hjá stjórnmálamönnum að rikka upp flottum vef nokkrum vikum fyrir kosningar og halda honum svo ekkert við þess á milli. Þeir stjórnmálamenn sem bestum árangri hafa náð í að vekja athygli á því sem þeir segja í vefmiðlum nota einhver konar bloggform, þeir tjá sig reglulega um málefni líðandi stundar og fólk getur flett í gegnum fyrri skrif þeirra á auðveldan hátt. Það eru þeir stjórnmálamenn sem fanga mesta athygli fjölmiðlafólks. Ég nefni hérna bloggsíður Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Það er reyndar flott hvað margir ráðherrar eru bloggarar, það eru fimm ráðherra sem blogga, auk Sivjar og Björns þá eru það Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Það er líka flott að sjá hvað margir þingmenn í dreifbýlum kjörndæmum eru með blogg sem greinilega eru fyrir fólkið í þeirra kjördæmum og hvað þingmennirnir eru að vinna við t.d. Kristinn í Vestfjarðakjördæmi og Dagný í Austfjarðakjördæmi. Það er eins og á þessum misserum sé einhvers konar vitundarvakning meðal stjórnmálamanna varðandi svona síbyljuskrif eins og blogg, margir eru farnir að skrifa reglulega og krassandi greinar eins og Össur , Þórunn , Ögmundur og Mörður.

En hvað skyldu margir af þeim sem sækjast eftir að komast í borgarstjórn flytja okkur reglulega pistla af bloggsíðum? Nánast allir frambjóðendur settu upp vefi rétt fyrir kosningar en mér sýnist ekki allir nota þá, kannski voru þeir notaðir bara í prófkjörinu. Ég set hér með tengingar í blogg sem ég veit um í 2 efstu í litlu framboðunum og 8 efstu í stóru framboðunum. Ég tók ekki með vefi frambjóðenda sem virðast ekkert hafa tjáð sig eftir prófkjörin. Það eru ekki bloggarar. Þannig virðast bæði Gísli Marteinn og Stefán Jón Hafstein ekki hafa séð ástæðu til að tjá sig eftir prófkjörin. Ég fann engin blogg hjá frjálslyndum í Reykjavík, þeir hafa bara hringitón og bara eitt hjá Sjálfstæðismönnum. Þessi athugun bendir til að langmest áhersla sé á blogg hjá Framsókn, Samfylkingu og Vinstri Grænum og frambjóðendur þar virðast líta á persónulega tjáningu frambjóðenda sem mikilvægt innlegg í stjórnmálastarfið. Mér finnst það góðs viti og það ættu allir að huga að því fyrir kosningar hvort frambjóðendur sem þeir styðja séu tilbúnir til að bregðast snöggt við aðstæðum í borgarmálum og þjóðmálum og tjá sig reglulega. Ef við fylgjumst með bloggsíðum frambjóðenda þá höfum við miklu betri sýn yfir fyrir hvað þeir standa og hvernig þeir eru líklegir til að bregðast við málum. Það er bara skrýtið að finna bara eitt blogg hjá Sjálfstæðisflokknum.

en hér er sem sagt úttektin, um það bil helmingurinn með blogg í heildina - ég bæti við tengingum ef ég finn fleiri blogg

Framsókn
 1. Björn Ingi Hrafnsson, Hálsasel 52, aðstoðarmaður ráðherra
 2. Óskar Bergsson, Ljárskógar 25, rekstrarfræðingur og húsasmíðameistari
Samfylking
 1. Dagur B. Eggertsson, Óðinsgata 8b, borgarfulltrúi
 2. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Rauðalækur 23, borgarstjóri
 3. Stefán Jón Hafstein, Freyjugata 44, borgarfulltrúi
 4. Björk Vilhelmsdóttir, Depluhólar 9, borgarfulltrúi og félagsráðgjafi
 5. Oddný Sturludóttir, Sjafnargata 10, rithöfundur og píanókennari
 6. Sigrún Elsa Smáradóttir, Jöldugróf 3, markaðsstjóri og varaborgarfulltrúi
 7. Dofri Hermannsson, Logafold 19, meistaranemi í hagvísindum
 8. Stefán Jóhann Stefánsson, Fljótasel 32, hagfræðingur
Frjálslyndir
 1. Ólafur F. Magnússon, Vogaland 5, læknir og borgarfulltrúi
 2. Margrét K. Sverrisdóttir, Grenimelur 29, framkvæmdastjóri
Sjálfstæðisflokkur
 1. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Máshólar 17, borgarfulltrúi
 2. Hanna Birna Kristjánsdóttir, Helluland 2, borgarfulltrúi
 3. Gísli Marteinn Baldursson, Melhagi 12, dagskrárgerðarmaður og varaborgarfulltrúi
 4. Kjartan Magnússon, Hávallagata 42, borgarfulltrúi
 5. Júlíus Vífill Ingvarsson, Hagamelur 2, lögfræðingur
 6. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjalarland 28, ráðgjafi menntamálaráðherra
 7. Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, Kirkjuteigur 29, hjúkrunarfræðingur og varaborgarfulltrúi
 8. Sif Sigfúsdóttir, Þorfinnsgata 8, MA í mannauðsstjórnun
Vinstri Grænir
 1. Svandís Svavarsdóttir, Hjarðarhagi 28, framkvæmdastjóri
 2. Árni Þór Sigurðsson, Tómasarhagi 17, borgarfulltrúi

16.5.06

Grín og alvara í stjórnmálabaráttu

Hugleiðingar parkeringar, farartæki og aksturslag í stjórnmálum

Háðfuglarnir á rvik.blogspot.com fá mig til að brosa af annars frekar litlausri kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Reyndar er baráttan alls ekki litlaus hjá litlu framboðunum Framsókn, Vinstri Grænum og Frjálslyndum en ég tek ekki ennþá eftir neinni kosningabaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.Kannski þessi framboð telji að best sé að minna sem minnst á sig á meðan litlu framboðin hafa allt að vinna. Þetta breytist nú sennilega núna á lokasprettinum.


Hver eru baráttumálin?

Ég er að spá í um hvað þessar kosningar snúast í ár - hver eru aðalmálin og hvernig skilur á milli framboða? Í Reykjavík eru stóru málin infrastrúktúrmál eins og staðsetning flugvallar og Sundabraut. En það virðist snúast fremur um leiðir heldur en markmið - allir vilja fá meira byggingarland miðsvæðis í Reykjavík og allir vilja betri samgöngur í Reykjavík. En kannski kristallast kosningamálin mest í því hvers konar þjónustu menn vilja niðurgreiða og fyrir hverja. Sjálfstæðismenn víða vilja lækka fasteignagjöld en aðrir svo sem Framsókn, Vinstri grænir og Samfylking vilja styrkja barnafjölskyldur t.d. með styrk vegna umönnunar ungra barna, hafa gjaldfrjálsan leikskóla (samfylking og VG) og greiða niður frístundir barna.

Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðu

Meira segja Sjálfstæðismenn leggja núna áherslu á leikskólamálin, boða lækkun á gjaldskrá og ýmis framfaramál í leikskólum. Verður þar að segjast að batnandi flokki er best að lifa og er ekki annað en gott um það að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins áttað sig á því að þetta eru brýn mál - þetta rifjar hins vegar upp fyrir mér ömurlegan tíma þegar yngri dóttir mín var á leikskólaaldri og Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu í borginni fyrir tíma Reykjavíkurlistans. Þá var hrikalega búið að barnafólki og útilokað að fá nema hálfsdags leikskólapláss og það fyrst eftir margra ára biðlista - á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík eins og steingert tröll sem hafði dagað uppi, algjörlega blint á brýn samfélagsmál. Mig minnir að ein helstu kosningamálin hjá Sjálfstæðisflokknum árið sem hann tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum hafi verið að byggja og byggja glás af bílastæðahúsum. Þetta var táknrænt fyrir ástandið þá - í staðinn fyrir að greina vandamálin og fylgjast með kalli tímans þá parkeruðu Sjálfstæðismenn. Vonandi hefur langt tímabil í stjórnarandstöðu kennt þeim að hlusta á raddir borgarbúa og koma sér inn í 21. öldina.

Framfaraskeið í Reykjavík - Reykjavíkurlistinn

Það tímabil sem Reykjavíkurlistinn hefur verið við völd í Reykjavík hefur verið mikið framfaraskeið. Reykjavík hefur breyst í blómlega höfuðborg þar sem er gott að búa. Það var Reykjavíkurlistasamstarfið sem varð til að sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyrði þ.e. Kvennalistinn leið undir lok - eða öllu fremur rann inn í Samfylkinguna. En það er ekki hægt annað en fagna því hverju Kvennalistinn kom í verk inn í Reykjavíkurlistanum og ég stolt yfir þeim tveimur borgarstjórum í Reykjavík sem komu frá Kvennalistanum, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steinunni Valdísi og sem og af öllu því starfi sem Kvennalistakonur unnu í borgarstjórn. Það er engin eftirsjá í Kvennalistanum, það var flott að enda með því að komast til valda og að fá tækifæri til að móta stefnu og framfylgja henni í stærsta sveitarfélaginu og einu stærsta atvinnufyrirtæki á landinu.

Engan hefði grunað að allir flokkar væru nú árið 2006 með stefnu í fjölskyldumálum sem hefðu þótt týpiskar Kvennalistaáherslur á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum. En tími Reykjavíkurlistans virðist vera liðinn - það er sorglegt því samstarfið hefur gengið alveg ágætlega fyrir utan djúpstæðan ágreining sem varð um borgarstjóra þegar Ingibjörg Sólrún fór í framboð til alþingis. Bæði Kvennalistinn og Reykjavíkurlistinn voru frábær umbótaöfl en hjól tímans halda áfram að snúast og það er ekkert við því að gera þó hreyfingar deyi út. Upp úr svörðinum munu vaxa upp nýjar hreyfingar með nýjar áherslur.

Farartæki í kosningabaráttunni


Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er í huga mínum tengdur við úrræðaleysi og bílastæðahús og kyrrstæða bíla þá hefur Framsókn verið í nokkrum hremmingum vegna Hummer bíls sem lánaður (eða leigður, ég veit ekki hvort) var í kosningabaráttuna. Gárungar í Framsóknarflokknum kalla núna hummerinn bömmerinn og hann hefur orðið viðfangsefni ýmis konar spés og gagnrýnis. Það hefði örugglega verið sniðugra fyrir Framsókn að hafa fararskjóta sem vekti upp öðru vísi hugrenningar, ég held að það hefði verið snjallt að tengja Framsókn meira við sveitina, það er nokkuð sama hvað það eru fáir bændur orðnir eftir í flokknum og væntanlega engir í Reykjavík, samt er uppruni Framsóknar alltaf sem bændaflokkur og táknmyndir fyrir flokkinn eru alltaf kýr og búkonur og sveitabúskapur. Mér finnst það reyndar stórfínt og finnst að það ætti bara að ýta undir þetta í ímyndarmálum, þetta er hvort sem er sterk ímynd fyrir. Þá hefði kannski verið meira viðeigandi að keyra um á traktor eða gömlum landrover eða einhver konar vinnubíl t.d. pallbíl - já til að undirstika að þetta væri stjórnmálaflokkur sem ynni í málunum.

Ég styð Framsóknarflokkinn, mér finnst frambjóðendur í efstu sætunum þau Björn Ingi, Óskar, Ásrún og Marsibil öll vera frábær í borgarmálin. Mér finnst reyndar líka þrælfínir frambjóðendur hjá öðrum flokkum, ekki síst frambjóðendurnir sem eru í öðru sæti á listunum ég hef mikla trú á Margréti Sverrisdóttur hjá Frjálslyndum, Árna Þór hjá Vinstri grænum, Steinunni Valdísi hjá Samfylkingunni og Hönnu Birnu hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er reyndar umhugsunarverk að það eru karlmenn í fyrsta sæti hjá öllum flokkum nema VG. Er það vegna þess að það var prófkjör í öllum flokkum nema VG en þar var ákveðið að Árni Þór væri í öðru sæti þó hann hefði afar farsæla reynslu í borgarstjórn og mesta reynslu í borgarstjórn til þess að kona væri í fyrsta sæti?

Ég fylgdist best með prófkjörinu í Framsóknarflokknum, þar börðust Björn Ingi, Óskar og Anna um fyrsta sætið. Anna stóð sig mjög vel og lagði mjög mikið undir í prófkjörsbaráttu, hún hins vegar varð fyrir vonbrigðum með úrslitin og tók ekki sæti á listanum. Ég held að jafnvel þó að svona opin prófkjör nái að vekja athygli á stjórnmálaflokk þá fylgja þeim gífurleg útgjöld og vinna fyrir þá sem eru í framboði og það sem verra er að svoleiðis barátta getur sprengt gjár á milli frambjóðenda. Það er alla vega ekki konum til framdráttar í flokkum ef frambjóðendur eru valdir í svona prófkjörum.

Akstur Árborgarframbjóðandans

Í framhaldi af umræðu um parkeringar og bílategundir þá enda ég þennan pistil á aksturlagi. Einn frambjóðanda keyrði ölvaður á staur. Ég finn til með Eyþóri í Árborg sem núna hefur dregið sig út úr kosningabaráttunni vegna ölvunaraksturs. Vonandi tekst Eyþór vel að vinna úr sínum málum og vonandi á hann eins og aðrir stuðning vísan hjá samfélaginu þegar hann hefur tekið út sína refsingu og vonandi verður hann öflugur málsvari þess að stilla neyslu vímuefna í hóf. Fall hans er stórt og það hafa fáir sem teknir hafa verið við ölvunarakstur þurft að þola það að vera svona opinberlega afhjúpaðir. Eyþór var ein af skærustu stjörnum Sjálfstæðismanna og hans framboð var í bullandi siglingu. En vandamál Eyþórs er einn angi af því samfélagsmeini sem er hvað ömurlegast í íslensku samfélagi. Það er vímuefnaneysla.

Leiðrétting
Mér var bent á það var prófkjör hjá Vinstri Grænum. Borgarfulltrúar þeirra voru Árni Þór og Björk Vilhelmsdóttir. Þau hafa bæði staðið sig vel og eru vinsæl meðal borgarbúa. Þau halda bæði áfram í baráttunni en með sitt hverjum hætti. Árni Þór var oddviti Vinstri Grænna en það kom á óvart að hann bauð sig fram í annað sæti og skv. reglum VG þá er fléttulisti karla og kvenna í efstu sætunum. Björk Vilhelms tók ekki þátt í prófkjörinu og fór úr Vinstri Grænum yfir í Samfylkinguna og er í 4. sæti á lista þar. Björk mun hafa verið óánægð með að VG voru það stjórnmálaafl sem lagði kapp á að splundra Reykjavíkurlistanum. Í Morgunblaðinu 1. september stendur þetta um prófkjör Vinstri Grænna og ákvörðun Árna Þórs:

"Ákvörðun Árna Þórs Sigurðssonar, sem hann kynnti sl. þriðjudag, um að gefa kost á sér í annað sæti á lista flokksins kom mörgum á óvart og má ráða af samtölum við VG-félaga að mikil óvissa er uppi um hverjir muni sækjast eftir efsta sætinu og leiða listann í vor. Árni Þór hefur verið oddviti VG í borgarstjórn og nýtur víðtæks stuðnings. Er talið að ganga megi út frá því vísu að hann verði valinn í það sæti sem hann sækist eftir í forvalinu. Boðinn verður fram svonefndur fléttulisti fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor þar sem konur og karlar skipa sætin á víxl. Má því að öllum líkindum ganga út frá því að kona muni skipa fyrsta sæti á lista vinstri grænna í vor."

Svandís formaður VGR skipar fyrsta sæti hjá Vinstri Grænum. Það er flott hjá VG að vera með eitt framboða með konu í fyrsta sæti og það er umhugsunarvert að það gerist vegna þess Árni Þór sem verið hafði oddviti listans ákveður sérstaklega að sækjast ekki eftir fyrsta sætinu og eftirláta það konu. Það var hins vegar ekki flott hjá VG að hamast eins og ólmir við að sundra Reykjavíkurlistanum.

14.5.06

Drottningin grætur oft

The Queen cries a lot Ég fór í fyrsta skipti til útlanda árið 1978. Það var Washington DC. Þar sá ég Hvíta húsið. Það vakti samt enga athygli mína, það var ekkert líf í kringum það, bara hvítt virðulegt hús sem ég horfði á í fjarlægð gegnum rimla. En á götunum í kring og torgum þar fyrir framan var erill og uppákomur, þar var fólk að mótmæla - ekki bara einhverju einu heldur alls konar ástandi í heiminum. Ein mótmælagangan heillaði mig sérstaklega, það var endalaus ganga af lífsglöðu ungu fólki sem sönglaði í takt "shah out of Iran"og steytti hnefa til himins. Þetta var eitthvað svo mikill samtakamáttur í þessum söng og mikil bjartsýni. Allt var þetta fólk dökkt yfirlitum og klætt svörtum fötum og flestir virtust vera háskólanemar ættaðir frá Íran. Þegar ég fór til Washington DC mörgum árum seinna þá sá ég líka langa göngu af sams konar ungu fólki við Hvíta húsið og slagorðið sem þau hrópuðu núna voru svipað - nema bara núna var hrópað "ayjatollah out of Iran". En þessi síðari hópur var hnípinn og það vantaði í hrópin alla gleði þess sem veit að hann mun sigra.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að fletta gömlum dagblöðum áðan. Ég greip bara niður einhvers staðar í gömlum Morgunblöðum sem lesa má á timarit.is og ég var að skoða fréttir frá 1961 og var að hugsa um hvað það sem var í fréttum þá er öðru vísi en núna. Ég spáði líka í hvað var ekki í fréttum og spáði í að af mörgum blöðum sem ég hafði lesið þá var engin frétt um konur eða sem tengdist konum. En þá sá datt ég niður á eina frétt um konu, það var um drottninguna í Íran, unga stúlku að nafni Fara Diba sem þá nýlega hafði alið son sem allt benti til að yrði þegar fram liðu stundir ríkisarfi í Íran. Mohammad Reza Íranskeisari hafði einmitt skilið við tvær fyrstu konur sínar, Soraya og Fawzia vegna þess að þær ólu honum ekki syni. Hlutskipti nýju drottningarinnar virðist hafa verið dapurlegt, hún fær ekki að hafa barnið sitt hjá sér og hennar eina hlutverk var að ala son, hún grætur oft. En enginn getur séð fram í tímann, árið 1979 er Íranskeisara steypt af stóli og við tekur klerkastjórn þar sem æðstipresturinn Khomeini er alvaldur.

12.5.06

Það vantar 100 milljón konur

svenson9-orkestra_jpg
Sænskar stelpur fyrir framan verk Uno Svenson, Ronneby 2001.
Fyrir nokkrum árum fór ég á sýningu á verkum listamannsins Uno Svenson (Svíi númer eitt) í menningarmiðstöðinni í heimabæ hans Ronneby. Þar hreifst ég mest af málverkum hans af fóstrum - málverkum af mistökum í fósturframleiðslu og úrgangi í framleiðsluferli sem framleiðir menn, málverkum af fóstrum og barnslíkum sem kastað er í ruslið. Á sama tíma og ég horfði á verk Unos þá heyrði ég í lúðrasveit eða hljómsveit, svo þusti inn í sýningarsalinn stelpnahópur í skærrauðum búningum, glaðar og háværar litlar stelpur í með sprota í hendi. Í huga mér tengist stelpnahópurinn við hryllingsmyndirnar af tæknivæddri mannaframleiðslu sem Uno Svensson brá upp og minnir mig á hverju er helst kastað burt úr mannaframleiðslunni.

Í gærkvöldi horfi ég á þáttinn Saknas: 100 milljoner kvinnor í sænska sjónvarpinu. Það var frönsk heimildarmynd gerð af Manon Loizeau á ferðalögum í Indlandi, Pakistan og Kína. Í sumum héruðum Indlands svo sem Punjab og Haryana eru miklu fleiri karlmenn en konur, já miklu fleiri en tölfræðin myndi áætla. Skýringin er sú að stúlkubörnum er slátrað þegar í móðurkviði. Í hverju þorpi eru einkareknar sónarstöðvar sem geta skoðað fóstur og sagt til um hvort það er strákur eða stelpa og ein vinsæl auglýsing slíkra stöðva er slagorðið "Borgaðu 500 rúpíur núna í dag - sparaðu 50000 rúpíur í framtíðinni", auglýsing sem við skiljum ekki en vísar til þess að í indversku samfélagi er víða litið á stúlkubörn sem bagga og fjölskyldur eru hræddar við að eiga ekki fyrir heimanmundi (dowry) þegar stúlkur giftast.

Tölur sem nefndar voru í myndinni eru að af sex milljónum fóstureyðinga í Indlandi á ákveðnu tímabili þá eru 90 % þeirra deyðing á kvenkyns fóstrum. Í þættinum var viðtal við mæður í sveitahéruðum sem lýstu því hvernig þær höfðu drepið meybörn með því að svelta þau, blanda tóbaki og öðru eitri við mjólk eða kæfa þau. Það var líka sýnt inn í þorp piparsveina - sveitaþorp þar sem unga fólkið er næstum eingöngu ungir karlmenn og það var viðtal við unga menn sem hafa enga möguleika á því að kvænast - það eru engar konur. Það var líka fylgst með samtökum sem reynir að greina hvaða stúlkubörn eru í hættu á að vera drepin og vanrækt til dauða, fjölskyldan er heimsótt og reynt að styðja við móðurina og fá hana hana til að annast barnið.

Kvikmyndagerðarmaðurinn ferðaðist líka til Pakistan og fylgdi eftir manni sem safnar saman barnslíkum og reynir að finna ungabörn á lífi - hann finnur um 20 börn á mánuði, allt stúlkubörn. Svo var líka fjallað um Kína en þar vantar bara 50 milljón konur. Þar eru munaðarleysingjahælin full af stelpum, strákar eru ekki bornir út nema þeir séu bæklaðir.

Það eru margar skýringar gefnar á útburði meybarna og hvers vegna meyfóstur eru deydd í móðurkviði. Í Kína er skýringin sögð eins barns stefna stjórnvalda - það að fjölskyldur megi ekki eiga nema eitt barn en í Indlandi er skýringin sögð barnmargar fjölskyldur og fátækt, í Pakistan er það allsleysi og örbirgð.

Útburður meybarna og deyðing meyfóstra er langt í frá neitt nýtt í mannkynssögunni, á gendercide.org er grein um útrýmingu meybarna. Í sögum af bernsku tveggja persóna í biblíunni eru talað um útrýmingu sveinbarna. Þannig var Móses lagður í reyrkörfu og fleytt út á Níl vegna þess að slátra átti sveinbörnum og Jesús hafður í felum út af Heródesi sem ætlaði að aflífa öll nýfædd sveinbörn. Ef til vill eru sögurnar sannar og ef til vill var þetta vopn sem herraþjóð beitti. En það getur líka verið að þessar sögur hafi orðið til vegna þess að það var svo sjaldgæft að aflífa sveinbörn - og þessi tilhugsun að slátra sveinbörnum hafi gert sögurnar áhrifameiri og fest þær í minni samfélaga sem undursamlega og guðdómlega björgun.


Hér er ein af myndum Uno Svenson af úrkastinu úr framleiðslu manna.

svenson4_jpg

10.5.06

Sódakökur, reyksprengjur og ljósakast

Alveg gæti ég hugsað mér að baka svona sódaköku, það á bara að kaupa tilbúið kökumix, passa sig að fara ekki eftir leiðbeiningunum á pakkanum heldur blanda t.d. Sprite Zero saman við það og baka svo. Svo er hérna uppskrift af reyksprengju sem er gæti verið gaman að prófa að gera. Mér finnst uppsetning á vefnum Instructables sniðug, svona námsvefur þar sem lesendur geta sett inn sínar leiðbeiningar og vinnuteikningar. Allt er þetta verkefnamiðað og miðast að því að búa eitthvað til eða leysa eitthvað vandamál. Eða gera eitthvað sniðugt. Hvenær ætli svona ljósakast (LED throwies) berist til Íslands?


Ég er að skoða vefi eins og Makezine og Hackaday og Mohack

Þessi mods, hacks, diy hugsun er andstæðan við fjöldaframleiðslu, færiband og tilbúnar lausnir - hún er uppreisnarandi, remix eða hakkarahugsun þar sem ekki á endilega að nota hluti á þann hátt sem vanalegt er eða sem þeir eru framleiddir fyrir heldur tengja upp á nýtt, endurblanda og endurhanna.

9.5.06

Burstabær í þrívídd - Google Sketchup

burstabaer1-mynd
Ég hef undanfarið verið að prófa Google Sketchup sem er ókeypis þrívíddarforrit frá Google. Sketchup er frábært verkfæri og ég held það muni nýtast vel skólanemum, jafnvel ungum börnum. Þetta er hönnunarverkfæri þar sem hægt er að smíða hluti, landslag og umhverfi og sjá það og vinna með það í þrívídd. Þetta er ekki stórt forrit og hægt að keyra það á flestum nýlegum tölvum (Macintosh útgáfa væntanleg), svo er það ókeypis og það allra besta er að Google hefur líka sett upp 3d Warehouse þar sem maður getur sótt sér einingar í það sem maður vill smíða í þrívídd. Ef ég ætla að smíða hús þá gæti ég t.d. sótt glugga, hurðir, fólk, tré og þess háttar í stað þess að þurfa að teikna allt sjálf frá grunni.

Í dalnum stendur bóndabær, með burstir þrjár
Þegar ég var lítil stelpa og við áttum að teikna eitthvað í skólanum þá man ég að algengasta teikningin var íslenskur torfbær með þremur burstum. Það var táknmynd íslensku sveitarinnar, ég man að ég furðaði mig á þessu sem barn, af hverju allir teiknuðu íslenska sveit sem burstabæ, fæstir bjuggu í torfbæ þá og við sáum sárasjaldan torfbæi. Svo var líka gaman að spá í hvað það var lítil þrívídd í burstabæjarteikningum barna en mikið af þríhyrningum. En ég gekk í barndóm og teiknaði íslensku sveitina inn í Google Sketchup og bjó til þrívíddarmódel af torfbæ bernskunnar og gat gert hluti sem ekki var mögulegt með blýanti og trélitum í gamla daga, ég gat snúið torfbænum mínum á alla vegu og ég meira segja sneri honum við og þiljaði hann allan að innan með tré og gerði innangengt á milli bursta. Reyndar gerði ég bara eina burst og fjölfaldaði hana í tvær aðrar. Svo setti ég burstabæinn minn inn í 3 d Warehouse. Sá galli er nú á fyrsta burstabænum mínum að hann er 5 mb sem er risastórt fyrir svona einfalt líkan en það stafar líklega af því að ég sótti mynstur fyrir steina og gras. Ég bjó því til nýjan burstabæ sem er aðeins 222 k, hægt er að hlaða honum niður hérna.

Gámahús
Ég gerði líka tilraun til að búa til gámahús í Google Sketchup, mér finnst svo sniðugt að búa til íbúðarhúsnæði úr gömlum skipagámum. Svo finnst mér skipagámar vera heillandi og falleg form, ég fer stundum inn á Sundahöfn og hrífst af þeirri sjónlistarveislu að sjá nokkur hundruð gáma í stöflum bera við sundin bláu. Ég sótti mér 20 feta og 40 feta gáma í 3d Warehouse og setti á þá glugga og hurðir og litaði hliðar og setti svalir og plantaði trjám. Ég var þá ekki búin að læra nóg á Sketchup þegar ég gerði þetta þannig að sumt varð nú skrýtið, en hér er afraksturinn, mitt fyrsta gámahús:

Google Sketchup 5
Það er hægt að sækja gámahúsið mitt í 3d Warehouse á þessari slóð. Ég stefni að því að hanna flottara gámahús þegar ég er búin að læra meira í Sketchup. Svo þarf ég líka að prófa að hanna landslag, ég er bara ekki mjög vön að vinna með hæðarlínur.

4.5.06

We Media

Ég var að hlusta á netútsendingu BBC frá ráðstefnunni We Media sem nú stendur yfir í London. BBC hefur líka sérstakt blogg um ráðstefnuna. Þetta er alheimsumræða með þátttakendum úr ýmsum áttum, að mér virðist nú vera mest frá fjölmiðlarisum eins og BBC og Reuters - umræðan er út frá sjónarhóli vestrænnar fjölmiðlunar í dag. Ég hef verið þátttakandi í Global Voices Online sem er eitt þeirra félaga sem stendur að umræðunni. Þar hefur verið fylgst grannt með mannréttindabrotum og höftum á tjáningu víðs vegar í heiminum, ekki síst í Kína og Arabaheiminum. En ég held að umræðan sé mjög lituð - lituð af því að sagan sem við á Vesturlöndum viljum láta segja okkur um heiminn er sú að tjáningarfrelsi okkar sé mikið á Vesturlöndum, við búum við milda og réttláta stjórn og meiri mannréttindi en aðrir heimshlutar og fjölmiðlar á Vesturlöndum flytji okkur vandaðar og hlutlausar fréttir - það sé bara í fjarlægum löndum með ólík kerfi þar sem gæðum er misskipt, mannréttindi fótum troðin og tjáningarfrelsi ekkert.

Samskiptatækni, Internetið og þráðlaus net geta breytt vettvangi fjölmiðlunar þannig að það eru ekki lengur skörp skil fjölmiðla og áhorfenda - það eru ekki lengur fjölmiðlar sem senda út og miðla efni og almenningur sem situr við lestur eða viðtækin og hlustar og horfir á efni, fólk getur orðið þátttakendur í fjölmiðlum því það getur líka tekið þátt í að búa til, safna saman, dreifa, endurblanda, endurnýta og endurdreifa efni. Það eru hins vegar margar manngerðar girðingar sem gera fólki erfitt um vik að nýta sér nýja tækni á nýjum sviðum. Það er ekki vilji þeirra sem hafa hagsmuni af því að viðhalda núverandi valda-, viðskipta og eignakerfi að ný tækni sé notuð til að umbylta því.

3.5.06

Skypecast netfundir með allt að 100 manns

Skype hefur opnað þjónustu sem þeir kalla Skypecast. Það eru svona netfundir og það geta verið allt að 100 á fundinum. Ég prófaði þetta áðan, bjó til fund sjálf og fékk einn nemanda minn sem var á Skype inn á Skypcast fundinn og svo prófaði ég líka að skrá mig á fundi hjá öðrum. Ég ætla að prófa þetta aftur á morgun 4. maí kl. 10:45-11:15 og ég væri þakklát öllum Skypenotendum sem nenntu að prófa þetta með mér með að koma inn á fundinn , það þarf bara að fara á þessa vefslóð og smella á Sign in to join og slá inn skype notendanafn og lykilorð. Ég held að það verði að hafa hlaðið niður nýjasta Skype þ.e. útgáfu númer 2.5. Þetta er ókeypis þjónusta hjá Skype og verður örugglega mjög vinsæl. Ég nota Skype mjög mikið með nemendum mínum, það er afar hentugt að tala saman á Skype á sama tíma og ég er kannski að skoða verkefni hjá nemanda og oft ef þeir eru í vandræðum þá logga ég mig inn á þeirra vefsvæði og laga eitthvað og útskýri fyrir þeim um leið hvað er að. Við höfum líka prófað á þessari önn að nota saman Skype og Vyew.com og verið reglulega einu sinni til tvisvar í viku á svoleiðis fundum. Á vyew getum við sett inn glærur og myndir og teiknað og skrifað en notum hljóðið gegnum Skype. Þetta er einfalt og ókeypis fjarkennsluumhverfi. Það hefur bara verið vandamál að við höfum ekki getað verið með meiri en 5 í einu á Skyperáðstefnu nema sá sem hringir inn fundinn hafi tölvu með dual core örgjörva.

1.5.06

Fyrsti maí - Femínistar og jafnréttisverðlaun

Gangan 14Kristín Helga - Ingólfstorg 2
Katrín AnnaKristín Helga og Ásta Lilja 4

Femínistafélagið fékk jafnréttisverðlaun Reykjavíkurborgar í morgun. Það eru akkúrat þrjú ár síðan félagið kom fyrst fram opinberlega en það var einmitt í 1.maí göngunni árið 2003. Rauðsokkur söfnuðust einnig saman í fyrsta skipti í 1. maí göngu en það var árið 1970.
Ég tók nokkrar myndir í göngunni í morgun, hér er hægt að skoða þær sem myndasýningu