21.6.06

Sjóræningjaflokkurinn

Ef ég byggi í Svíþjóð og hefði kosningarétt þar þá myndi örugglega hvarfla að mér að kjósa nýja sænska Femínistaflokkinn . En svo mundi ég upptendrast og æða beint í Sjóræningjaflokkinn, ganga í þann flokk og starfa eins og ég gæti að baráttumálunum. Bæði þessi nýju sænsku stjórnmálaöfl snúast um brýn mannréttindamál og ég gæti varla gert upp á milli hvort er mér hugleiknara - að berjast fyrir réttindum kvenna og barna eða berjast fyrir tjáningarfrelsi og athafnafrelsi á Internetinu og frjálsu flæði þekkingar. Ég held hins vegar að akkúrat núna magnist rödd femínista ekki neitt upp með að vera lokuð inn í einhverju einu stjórnmálaafli. Ég held að málstaður femínista eigi hljómgrunn hjá öllu hugsandi fólki og það sé mikilvægara að bergmála rödd kvenfrelsis í öllum stjórnmálaflokkum og vinna líka saman þvert á flokka.

Þannig er það ekki með deilingu á efni á Netinu. Fæstir þeirra sem nú stjórna og setja okkur lög og leikreglur hafa skilning á því hversu mikilvægt frjálst flæði þekkingar er fyrir mannréttindi og fyrir athafnalíf á upplýsingaöld. Almenningsálitið er ekki hliðhollt netverjum, margir telja að við sem deilum og skiptumst á efni á Netinu og setjum saman efni úr ýmsum áttum séum ribbaldalýður og glæponar. Það fara fram ofsóknir á hendur netverjum í ýmsum löndum. Ef það gerist í Kína eða Miðausturlöndum þá hefur pressan á Vesturlöndum skilning á þessu sem mannréttindabrotum en ef það gerist á Vesturlöndum þá er fréttaflutningur oft afar litaður og orðið hakkari er notað sem heiti yfir einhvers konar hryðjuverkastarfsemi á Netinu og látið líta út fyrir að aðaliðja netlýðsins sé að hanga froðufellandi yfir dreifingu á klámi. Margt af því sem stjórnvöld og löggjafar aðhafast á þessu sviði er ekki með hagsmuni almennings í huga heldur til að tryggja hagsmuni ríkisvalds sem vill hafa eftirlit með þegnunum og til að tryggja hagsmuni fjölþjóðlegra stórfyrirtækja. Allar leikreglur um höfundarrétt og hugverkarétt og blöndun og dreifingu á efni eru miðaðar við veruleika sem er víðs fjarri þeim veruleika sem við lifum við í dag. Það er mjög erfitt fyrir marga þeirra sem lifa og hræra í heimi þekkingar og sem hafa hlotið skólun sína í heimi prentmiðla og miðstýrðrar ljósvakafjömiðlunar að skilja að sá markaðsmekanismi sem við búum við í dag er alls ekkert að virka í þessum nýja nettengda þekkingarheimi.

Nokkrar slóðir um Sjóræningjaflokkinn
Wikinews viðtal við stofnanda Sjóræningjaflokksins 20. júní
Upplýsingar á ensku um Sjóræningjaflokkinn
Myndir af mótmælum sænskra sjóræningja
Meiri myndir frá sænskum sjóræningjum

Ef til vill eru sænski femínistaflokkurinn og sænski sjóræningjaflokkurinn vísbending um þróun stjórnmála, ef til vill breytast stjórnmálaöfl úr því að vera gamlir flokkar og breiðfylkingar í að vera tímabundnar fylkingar fólks sem þjappar sér í kringum mjög skýrt afmarkaðan málstað - gjarnan málstað sem orðið hefur á einhvern hátt útundan en sem hefur samt þunga undiröldu og er á einhvern hátt boðberi nýrra tíma. Kvennalistinn sálugi og Frjálslyndi flokkurinn eru slík dæmi í íslenskum stjórnmálum, flokkar sem stofnaðir voru í kringum kvenfrelsi og kvótakerfi. Vinstri Grænir eru líka okkar græningjaflokkur. Ég velti fyrir mér hvort eða hvernig rótgrónir flokkar geta tekið í sátt femínista, græningja og sjóræningja.

Ég óska eftir að komast í samband við þá netverja sem hafa áhuga á að berjast fyrir því sama hérlendis og sænsku sjóræningjarnir. Við gætum kannski komið þessum málum eitthvað inn í umræðuna í næstu þingkosningum. Skrifið mér á salvorice@hotmail.com

19.6.06

Myndir frá 19. júní - Framtíð lýðræðis

Hefur maður einhvern rétt til að vera sinnulaus um stjórnmál? Ekki á 19. júní því það er dagurinn þar sem íslenskir femínistar mála bæinn bleikan og minnast þess að þann dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt til Alþingis. Ég gekk um kvennaslóðir í dag, drakk kaffi á Hallveigarstöðum og hlustaði á femíniska tónleika á Laugaveg 22. Hér er myndaalbúm með 72 myndum sem ég tók, það er líka hægt að skoða þær sem sjálfkeyrandi myndasýningu.

IMG_0162IMG_0194IMG_0175xIMG_0189


En hefur maður einhvern rétt til að vera sinnulaus um stjórnmál á hversdagslegri dögum en 19. júní? Ég held að það sé skylda okkar að taka þátt í stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu og reyna að hafa áhrif á samfélagsþróun. Það eru ágætir þættir á sunnudögum Rás 1 núna í sumar um framtíð lýðræðis og í gær 18. júní var viðtal við Atla Harðarson heimspeking þar sem hann veltir einmitt upp spurningu um ábyrgð þeirra sem sýna stjórnmálum tómlæti.

Úr útvarpsþætti um framtíð lýðræðis 18. júní

Lýðræði gengur út á að ólíkar skoðanir takist á og menn séu tilbúnir til að hlusta á aðra og geti skipt um skoðun ef rök andstæðinga eru nógu sannfærandi, lýðræði snýst um umburðarlyndi, tjáningarfrelsi og trúfrelsi.

Atli fjallaði um hvernig miðaldamenn gerðu ráð fyrir stigveldi, að mennirnir væru ekki jafnir og hin miklu umskipti í heimspeki verða þegar menn hætta að gera ráð fyrir að til sé einhver einn sannleikur og sá æðsti í stigveldi manna hefði eitthvað betri aðgang að sannleika og þekkingu en aðrir lægra settir. Á sautjándu öld fara heimspekingar að gera ráð fyrir að allir menn séu jafnir. Atli ræddi um heimspekingana John Locke og Baruch Spinoza en þeir voru uppreisnarmenn, þeir settu fram hugmyndir á tíma þar sem ekki var til neitt lýðræðisríki, hugmyndir sem voru afar róttækar á 17. öld á öld sólkonungsins, á öld þar sem flestir í fararbroddi í samfélaginu álitu það framfaramál að allir þræðir væru í hendi einvalds sem stjórnaði með ráðgjöfum sínum og töldu að ef skríll eða lýður ráði þá sé ekki stjórnað af þekkingu.

Fyrstu skrefin í lýðræðisátt voru tekin af þeim sem aðhylltust trúfrelsi. Ef samfélag er skipulagt í kringum eina trú og einn sið og það er glæpsamlegt að gagnrýna hana opinberlega þá verður ekki til það hugmyndatorg sem lýðræði gengur út á. Konungur átti að hafa þegið vald sitt beint frá guði. Locke notaði efahyggjurök til að mæla fyrir trúfrelsi. Locke setti fram hugmynd um fulltrúalýðræði, Spinoza varpar fram þeirri hugmynd að ríki það sem skoðanafrelsi og umburðarlyndi ríkir kunni að vera stöðugra, í þannig ríki væri minni hætta á blóðugum byltingum. Heimspekingurinn Rousseau á mikil ítök í draumaheimi nútímans - þeim draum að allir ráði ráðum sínum í sameiningu og komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Atli ræðir um hve stjórnmál njóti lítillar virðingar í dag og hættuna á því að við tökum lýðræðið sem of sjálfsagðan hlut. Stjórnmál snúist um málefni þar sem fólk er í nágrenni við alls konar drullupolla, það er tekist á um ýmis konar hagsmuni og þeir sem taka þátt hljóta óhjákvæmilega að fá á sig einhverjar slettur. En til þess að lýðræði virki þá þurfa margir að taka þátt og gefa kost á sér, almennir kjósendur að hlusta á hugmyndir og taka afstöðu til þeirra á yfirvegaðan hátt, kjósendur verða að taka stefnumál flokkanna alvarlega og hlusta á frambjóðendur. Annars er hætta á að kosningar verði skrípaleikur, einhvers konar ómerkileg vinsældakosning þar sem frambjóðendur dæla út áferðarfallegum sjónvarpsauglýsingum þar sem ýtt er á einhverja takka í sálinni á fólki.

Meira um kosningaþátttöku íslenskra kvenna og 19. júní

Þann 19. júní 1915 fengu konur sem voru 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið skyldi lækka um eitt ár næstu 15 árin, eða þar til 25 ára aldri væri náð en það voru þau mörk sem almennur kosningaréttur karla miðaðist við. Sama dag fengu þeir karlar sem voru vistráðin hjú kosningarétt með sömu skilyrðum og konur. Ástæðan fyrir aldurstakmarkinu var sú að stjórnvöld (karlar) töldu hina nýju kjósendur ekki nægilega þroskaða til að takast á við kosningaréttinn og töldu að ef þeim yrði öllum hleypt að kosningaborðinu í einu gæti það haft ófyrirsjáanleg áhrif á niðurstöður kosninga.
Þessar takmarkanir voru á kosningarétt voru síðar felldar niður og árið 1920 verða karlar og konur jöfn að lögum að því er snertir kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Árið 1908 sameinuðust kvenfélögin í Reykjavík um fyrsta kvennaframboðið á Íslandi. Fjórar konur skipuðu listann, þar á meðal Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og komust þær allar í bæjarstjórn - fyrstar kvenna hér á landi. Árið 1922 hlaut Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra kosningu til Alþingis, fyrst kvenna.

Hér er efni sem ég setti á vef frá 19. júní 2003 og 2004.
19. júní 2003
Bleiku steinarnir afhentir 2003
Kvennasöguslóðir í kvosinni 19. júní 2004
19. júní 2004 ( myndir)
Borðar á vefsíður

19. júní 2006 myndaalbúm með 72 myndum
19. júní 2005 - Við viljum
Videóklipp frá þingvallahátíð (athuga, að til að spila vídeóið getur þurft að ýta tvisvar á myndina)15.6.06

Femíniskt samkynhneigt samfélag

Eftirminnilegustu erindin á ráðstefnunni Tengslanet III- Völd til kvenna á Bifröst 1. og 2. júní voru gífuryrðaflóðið hjá Germaine Greer og skörp greining hjá Þórhildi Þorleifsdóttur á hinu samkynhneigða karlmannasamfélagi sem við lifum í og ádrepa Katrínar Önnu þar sem hún spyr hvort það sé kvenna verk að verja sæmd karla. Þetta var öflug ráðstefna og dúndurpartý um kvöldið, svona stemming eins og á landsfundum Kvennalistans þegar baráttugleðin var mest. Þórhildur talaði um að við þyrftum femíniskt samkynhneigt samfélag en hugmyndin hennar gekk út á að við og fornmæður okkar búum í samkynhneigðu karlmannasamfélagi þar sem karlmenn elska aðra karlmenn og þar sem konum er líka kennt að elska karlmenn, dá þá og virða. Eftir orðræðu Þórhildar þá hef ég leitað að merkjum um hið karlmannlega samkynhneigða samfélag og þau blasa hvarvetna við. Ekki síst á þessum HM tíma. En merkin eru ekki bara í boltanum, þau eru líka í bókmenntunum og þau eru í öllum valdastrúktúr samfélagsins.

Á Súfistanum í gær las ég yfir kaffibolla fyrstu hlutann af bókinni Margs er að minnast eftir Jakob F. Ásgeirsson en það eru minningarbrot þar sem Kristján Albertsson bregður um mynd af samferðamönnum sínum. Kristján þessi var hliðvörður íslenskra bókmennta í marga áratugi og það var hann sem uppgötvaði eða bjó til með orðræðu sinni snilligáfu hins verðandi nóbelsskálds en Kristján lofsöng æskuverk íslenska bóndasonarins Halldórs frá Laxnesi í frægum ritdómi Loksins, loksins. Þessi minningabrot Kristjáns sem skráð eru eftir honum háöldruðum eru eins og kaflar úr rómantískum ástarsögum og ástarjátningum, mér fannst ég vera að lesa í bókum Theresu Charles eða Barböru Cartland þegar ég las hástemmdar frásagnir Kristjáns á því þegar örlagaþræðir hans og skáldjöfra spunnust saman. Kristján skrifaði líka bók um Hannes Hafstein en það rit er ef til vill eitt besta dæmið um hin samkynhneigða íslenska karlmannasamfélag. Um þá bók segir:

"Ævisaga Hannesar eftir Kristján varð strax umdeild bók en nú í dag þykir hún einna helst merkilegt fyrir þá gagnrýnislausu dýrkun á Hannesi sem þar kemur fram. Í sögunni er dregin upp mynd af honum sem nær gallalausum bjargvætti íslensku þjóðarinnar. Mannkostir hans er tíundaðir af svo miklum móð að menn hafa sagt að textinn nálgist það að vera hómóerótískur. " Kistugrein nr. 3412

Ég held að ritdómur um Vefarann sé líka hómóerótískur og það eru líka margar sögur Halldórs, sögur sem upphefja karlmenn og lýsa andstyggð á konum og sjá konur sem fórnarlömb hinna máttugu. Sagan Óvinir eftir Isaac Bashevis Singer hefur alltaf stuðað mig á sama hátt og sumar sögur Halldórs Laxness og sumar sögur eftir Guðberg Bergsson - svona sögur sem eru draumsýn og heimsýn karlmanna sem elska karlmenn og fyrirlíta konur.

Það er kominn tími til að steypa Hannesi Hafsteini af stalli - ekki með því að sprengja upp styttur bæjarins heldur með því að vefja um þær bleikum treflum og binda á þær bleik armbönd og endurskipa og endurraða sameiginlegum minningum með hliðsjón ef því að við höfum hingað til búið við samkynhneigt karlmannasamfélag í bókmenntum, stjórnmálum og allri sameiginlegri vitund.