21.9.06

Maður af erlendum uppruna

Ég hef reynt að slá inn í google í dag frasa eins og "how to blow up the world" og "how to get rich and make bombs without really trying" í veikri von um að draga að mér athygli hinnar árvökulu íslensku lögregluyfirvalda sem tékka á því að þegnarnir séu ekki að skoða að óþörfu alls konar óhollustu vefdrasl. Merkilegasta frétt dagsins er um manninn af erlenda upprunanum sem vafrar á Netinu og heldur að hann komist upp með það.

Þessi frétt var á Rúv í dag:
"Fréttablaðið greinir frá því á forsíðu í dag að lögregluyfirvöld hafi til rannsóknar mál sem varði þjóðaröryggi. Ábendingar hafi borist um að maður af erlendum uppruna liti oft á vefsíður sem fjölluðu um sprengjugerð. Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans, segir að embættinu berist ýmsar ábendingar um mál t.d. frá borgurunum. Hann segir ýmis mál koma til ríkislögreglustjórans og þau séu könnuð og séu formlega rannsökuð, sé tilefni til."

Ég er dauðhrædd um að lögregluyfirvöld komist að því að ég hef sérstakan áhuga á vefsíðum sem fjalla um raðmorðingja og vefsíðum um Helförina og vefsíðum um voðaverk í stríði og þjóðarmorð og útrýmingarherferðir. Nei bíddu við... sennilega finnst engum það grunsamlegt... við erum í samfélagi sem dýrkar ofbeldi og morð og ódæðisverk og á hverjum einasta degi er dælt yfir okkur uppskriftum af morðum og valdbeitingu, stundum eru þessar uppskriftir kallaðar fréttir, stundum sakamálaþættir stundum klámefni og stundum sögulegt efni.

En hinn fróðleiksfúsi maður af erlenda upprunanum sem skoðar alls konar vefsíður um sprengjur ætti kannski að beina fróðleiksfýsn sinni í aðrar áttir. Kannski að byrja á að kynna sér hvernig hann getur ferðast um sporlaust í óravíddum Internetsins. Það eru til verkfæri til þess, t.d. Torpark frá Hacktivismo.

Ég veit ekki hvort Ísland er að breytast í lögregluríki eða hvort það er þegar orðið lögregluríki eða hvort það hefur kannski verið lögregluríki sem njósnaði um þegnanna í marga áratugi. Það er ekkert eins hættulegt fyrir lýðræðið og stjórnvöld sem telja þegnana í eigin ríki vera sína verstu óvini.

19.9.06

Guðlast, guðleysi, vísindahyggja og bókstafstrú

Hörmulegustu stríðin sem nú eru háð í heiminum eru ekki innblásin trúarstríð og mesta ógn okkar er ekki brjálaðir ofsatrúarterroristar. Það stafar meiri ógn af stjórnvöldum sem nota hræðslu við trúarterrorisma sem átyllu og skálkaskjól til að byggja upp lögregluríki og eftirlitsþjóðfélag. En trúin er lím sem límir saman sundurleita hópa og getur veitt fólki sem fremur voðaverk einhvers konar réttlætingu gjörða sinna.

Það eru ekki skýrar markalínur milli bókstafstrúarmanna í Múslimalöndum og hinna frjálslyndra Vesturlanda, það er jafnmikill uppgangur í bókstafstrú sums staðar á Vesturlöndum, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem núverandi stjórnvöld sækja reyndar fylgi sitt til slíkra afla.

Þetta er skrýtin heimsmynd, geysistórar fylkingar af sama meiði - báðar vopnaðar eldgömlum skræðum biblíunni og kóraninum. það er alveg lygilegt hvað margir eru tilbúnir til að nota gagnrýnislaust gamlar bækur sem sitt leiðarstef í lífinu.

Hér eru tvö góð myndbönd um vísindahyggju versus bókstafstrú. Þar er bókstafstrú máluð sem óvinurinn og andstæða við vísindahyggju. Ég held hins vegar ekki að það sé einhver skörp skil milli vísindahyggju og trúar, vísindahugsun er ekki alltaf andstæða við gagnrýnislausa bókstafstrú. Vísindahugsun hefur á ýmsum tímum verið alveg eins og bókstafstrú lokuð inn í eigin kerfi og komist að furðulegum niðurstöðum með því að nota viðteknar aðferðir.

Reyndar finnst mér vísindamenn sem hafa komist niðurstöðum sem við núna teldum fáránlegar og skrýtnar vera mjög áhugaverðir. Mínir eftirlætisvísindamenn eru Daninn Tyche Brahe sem gekk með gullnef og færði lærð rök fyrir kenningu um að sólin snerist í kringum jörðina og svo Íslendingurinn Finnur Magnússon sem var etatsráð og leyndarskjalavörður konungs og samdi geysilegar doðrant um rúnirnar í Runamo og las út úr þeim vísur þar sem aðrir sáu jökulristur.

Guðleysinginn Richard Dawkins sem talar í myndböndunum mælir fram þau vísdómsorð að "religion thrives on unsolved mystery" en hann setur það fram eins og eitthvað slæmt. Trúarþörf er samofin hinu ókannaða, hinu ókunna, ímyndunaraflinu og tilfinningum, því sem við getur ekki sett inn í tilbúin kerfi.12.9.06

Skjákennsla

Ein sniðug aðferð í fjarkennslu er að taka upp efni sem nemandinn getur spilað - annað hvort í tölvunni hjá sér eða hlaðið inn í videó iPod. Ég hef verið að taka upp það ýmis konar sýnikennslu og setja á vefinn, hér eru dæmi um sýnikennslu um Wikimapia.org og um hugarkortsforritið Freemind. Ég vista upptökurnar sem flash formi og wma en set þetta líka á youtube eða google video þó það þýði minni gæði. Þessi myndræmukerfi eru alltaf að verða betri og betri og youtube er eitt mest sótta vefsvæði í heiminum í dag. Þar er margt efni svo sem tónlistarmyndbönd sem eru sennilega ekki þarna með samþykki höfundarrétthafa. Það er núna hægt að senda beint út á blogger frá bæði youtube og google video þannig að þetta er einföld leið til að gefa út margmiðlunarefni. Ég nota Camtasia til að taka upp sýnikennslu.1.9.06

Gender trouble í Póllandi

Ég er stödd í borginni Lodz í Póllandi, ég er þar á evrópskri kynjafræðiráðstefnu. Rétt áðan var ég að hlusta á Judith Butler flytja fagnaðarerindi sitt og mér heyrðist hún ekki tala í neinum samhljómi með Bush forseta sínum fremur en aðrir bandarískir menntamenn. Ég á eina bók eftir Butler, bókina Gender Trouble en verð að viðurkenna að ég hef aldrei lesið hana. Reyndar er það svo að þessi bók hefur ferðast með mér víða, þetta er svona kilja sem hentar að taka með sér í flugvélar. Ég hafði í mörg ár þann sið að hafa með mér í handfarangri sem lestrarefni tvær bækur, það var bókin Gender Trouble eftir Judith Butler og bókin Metaphors We live By eftir George Lakoff og Mark Johnson. Ég hef samt aldrei svo mikið sem lesið fyrstu blaðsíðuna í þessum bókum og það rann smán saman upp fyrir mér að þetta var einhvers konar rituall að pakka þeim með í ferðalög. Svona eins og að pakka með biblíunni eða einhverjum verndargripum með ristuðum táknum.

Nú er ég hætt að taka þessar bækur með mér í flug. Það er samt ætlun mín að lesa þær einhvern tíma. Þetta einhvern tíma getur samt verið afar langt í burtu í tíma. Núna hef ég nefnilega mestan áhuga á sakamálasögum og þá helst sakamálasögum úr íslenskum veruleik. Reyndar hef ég svo mikinn áhuga núna á sakamálasögum að mig langar til að skrifa sakamálasögu. Ég fékk þennan áhuga nýlega út af þrennu. Í fyrsta lagi þá hlustaði á heimildarþátt í danska sjónvarpinu um Blodgruppen sem er sænsk glæpasögukvennamafía og um glæpasagnahöfundinn Lizu Marklund, það rann upp fyrir mér að sakamálasaga er frásagnarform sem hæfir beittri samfélagsrýni og því að segja sögu um kúgun og vald. Heimildarþátturinn var "dokumentar om seks andre kvindelige svenske krimiforfattere, der mødes i "Blodgruppen" for at diskutere nye og anderledes metoder til at slå folk ihjel i deres romaner". Í öðru lagi var ég í Flatey í sumar og hitti þar glæpasagnahöfundinn Viktor Arnar Ingólfsson og hann sagði okkur frá bókinni sinni sem gerist í Flatey og svo í þriðja lagi hlustaði ég á leiklesturinn á Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson á rás 1 núna í sumar. Ég er sem sagt búin að bæta því við á listann yfir markmið í lífinu að skrifa eina sakamálasögu. Það kemur næst á eftir markmiðinu að verða skopmyndateiknari sem vílar ekki fyrir sér guðlast. Ég las því í Flateyjargátunni á flugleiðinni frá Íslandi, vonandi klára ég hana á heimleiðinni til Íslands.