31.1.03

Move to Iceland


Kannski er óþarfi að hafa svona miklar áhyggjur af ímynd Íslands út af þessu virkjanabrölti á hálendinu .... kannski væri sniðugra fyrir túristabransann að gera út á tölvunörda frekar en náttúrutúrista. Nördarnir ættu að geta þolað íslenska veðrið betur, þeir eru hvort sem er alltaf inni og það skiptir þá engu máli hvar þeir eru, bara ef þeir komast í rafmagn... og netsamband. Veit ekki hvort þessi flassmynd frá ubergeek.tv er á vegum íslenskra aðila en tölvunördar og anti-pc-istar ættu að hafa gaman af svona kynningu, Ísland er staðurinn : "...In the Brave New world all the cool, smart people get shfted off to Iceland". Svo er þarna líka flassmynd fyrir Linux-unnendur.

30.1.03

Internetsamfélagið ala Economist 1



Economist er 23. janúar með úttekt á Internetsamfélaginu Digital dilemmas. Þar er bent á hve gífurlegur hraði er á tæknibreytingum og ekkert lát er á því, afl örgjörva hefur tvöfaldast á 18 mánaða fresti frá árinu 1974 sb. Moore lögmálið. Victor Zue, sem stýrir tölvurannsóknarstofu í MIT heldur því fram að innan fimm ára verði háhraða Internet samband nánast ókeypis gæði í ríkari löndum heims. Svo mun samskiptatæknin vaxa hratt, tölvukubbar og þráðlaust netsamband verður allst staðar í boði og hvar vetna er hægt að koma fyrir örlitlum útvarpsnemum/sendum sem virka eins og lykill eða aðgangsauðkenni að netsambandi. Svoleiðis sendar geta verið græddir í fólk og sent upplýsingar um líkamsástand og þeir geta líka verið í mjólkurfernum og sent upplýsingar um birgðastöðu. Alls konar skynjarar og tæki verða tengd við Internetið. Og samfélagið þróast svona: "we are heading towards a networked society of ubiquitous, mobile communications capable of constant monitoring. "

Það verður hægt að fylgjast með öllu og skrásetja og yfirfara vélrænt gögn. Að vernda friðhelgi einkalífsins verður stórmál og það verður hvergi skjólshús eða felustaður á Internetinu. Sumir halda því fram að það séu einungis hinir betur stæðu og stjórnvöld sem hagnist á baráttu um að vernda gögn, miklu vænlegri leið sé að gera öll gögn um íbúa gagnsæ, allir geti flett upp persónulegum upplýsingum í gagnagrunnumm, þetta er kallar "mutually assured surveillance", kannski er bloggið og kennitöludýrkun Íslendinga á þeim nótum og kannski væri affarasælast að hin nýja Íslendingabók væri bara á netinu fyrir alla. David Brin skrifaði 1998 bókina “The Transparent Society” þar sem hann mælti fyrir um svona galopna gagnagrunna.

Svo er brugðið upp framtíðarsýn á lífið árið 2033 hjá Jane sem vinnur þegar henni sýnist, hefur öll sín gögn í þumlungstórum tölvukubbi og fær það sem hún þarf af upplýsingum beint af Netinu. Hmmm... ekki hljómar þetta spennandi ef meira breytist ekki á þrjátíu árum, margir nemendur mínir í framhaldsnáminu eru þegar komnir með svona kubba sem tengjast í USB portin og eru 250 mb eða meira og þeir eru held ég allir sítengdir amk ads tengingar og margir vinna í skólum sem eru með 100 mb Internetsamband. Ég var að tala við einn tölvukennara á miðstigi í gær og hann sagði mér að óformleg könnun meðal nemenda sinna sýndi að uþb 70% væru með ADSL samband heima. Svo er þessi framtíðarpersóna Jane með nógan frítíma og virk í pólitík og er alltaf að kjósa um hitt og þetta. Hín er með ágrædda ýmsa tölvukubba sem gefa upplýsingar til lækna um heilsu hennar.
En þetta fannst mér hryllilegast í framtíðarsýninni: "Jane always knows where her kids are because she can call them up on screen. They are too busy to get into much mischief anyway, with the round-the-clock edutainment she has scheduled for them. " Hvers vegna í ósköpunum er hún ekki með börnunum úr því hún ræður sér svona mikið sjálf, er það bara hún sem ræður tíma sínum, ráða krakkakreyin engu og af hverju skipuleggja þau ekki bara sjálf þetta "edutainment"? Af hverju er ekki vinnustaðurinn kominn inn á heimilið? Mér finnst það langsamlega mest í anda sjálfbærrar þróunar og rósemi og stöðugleika að flytja vinnuna aftur inn á eða nálægt heimilum fólks. Hugsa sér hvað mikið sparaðist í ýmis konar infrastrúktúr ef ekki væri verið að ferja fólk endalaust fram og til baka.

Svo er voða mikil hryggðarmynd dregin upp af lífi annarrar persónu sem er í þunglyndi af því að svo miklar upplýsingar um hann eru aðgengilegar á Netinu. Honum leiðist í vinnunni og hann hefur á tilfinningunni að sífellt sé fylgst með sér.

Það er líka grein um höfundarétt á Internetinu. Economist spáir einhvers konar samkomulagi milli tækjaseljenda og höfundarrétthafa á rafrænu efni. Kostnaður vil að fjölfalda og dreifa stafrænu efni verður hverfandi. Jessica Litman telur að það eigi ekki að reyna að stemma stigu við afritun. Frekar eigi að lögbinda rétt til að hafa fjárhagslegan ábata af verkum. Bent er á að núna sé Internetið einn stærsta uppspretta af ókeypis upplýsingum og það hafi ekki allir sem setja þar inn efni hagnað að leiðarljósi. Líka að Internetið geri ekki bara dreifingu og afritun á efni auðveldari, Internetið auðveldi líka að búa til inntak. Þess vegna verði inntaksiðnaðurinn að gæta hófs, ef farið er fram með offorsi þá muni viðskiptavinir glatast, almenningur mun ekki sætta sig við víðtækt eftirlit. Hvað myndi gerast ef höfundarréttur væri alveg afnuminn? Því er velt upp að þá væri áherslan á að búa til tæknihindranir frekar en lagalegar.

Svo mun hin nýja tækni færa völdin nær fólkinu. Borgarar þurfa ekki lengur að reiða sig á þær upplýsingar sem þeir fá frá stjórnmálamönnum, heldur geta sjálfir aflað upplýsinga. Því er spáð að á næstu áratugum verði mikil umræða um beint lýðræði og fulltrúalýðræði..

29.1.03

Krúttleg skrýtla um konur og kosningar


Fann þessa skrýtlu á Netinu, kannski fær hún systur mína sem sagði sig úr kjörnefndinni þarna í Norðvesturkjördæmi til að brosa.

28.1.03

Þingvellir og hálendið


Þingvellir verða í dag tilnefndir af Íslandi á heimsminjaskrá UNESCO. Ég veit ekki hvað það þýðir en vonandi þýðir það að Íslendingar og erlendir ferðamenn hafa um aldur og ævi aðgang að þessu svæði og ekki verður hróflað frekar við ásýnd svæðisins. Mér finnst Þingvellir vera einn allra heilagasti staður Íslendinga og það var hryllileg tilhugsun að einhver mannvirki þar kæmust í eigu einkaaðila sem ef til vill hefðu lokað af svæðinu en nú hefur ríkið sem betur fer keypt Valhöll. Vonandi verða öll mannvirki á svæðinu opin almenningi og einu trúfélagi ekki gert hærra undir höfði en öðrum varðandi aðgengi. Þingvellir eru helgistaður bæði kristinna og heiðinna manna á Íslandi, ég held að það sé bara eitthvað sem ekki er hægt að færa í orð við suma staði og sumir staðir eru bara heilagir fyrir alla eins og Jerúsalem sem er helgistaður þriggja trúarbragða. Ég held að umburðarlyndi og virðing fyrir lífsýn sem er öðruvísi en manns eigin ásamt því að sannfæra alla um helgi staða og að taka þungt á helgispjöllum sé farsælasta leiðin.

Ég held líka að það sé einhvers konar varðveislugildi fólgið í fegurð og tign bæði náttúru og manngerðra hluta. Ég fór einu sinni einn dag til Tel Aviv í Ísrael, rataði svo sem ekkert og ranglaði um göturnar. Kannski var ég í sérlega ljótu hverfum, kannski í einhvers konar fátækrahverfum en ég man að ég hugsaði - hvernig getur fólk búið og starfað í svona ljótu umhverfi? Ég man eftir að hugsa að allt umhverfið væri eins og herbúðir, líka ef fólk yfirgæfi þessa staði þá væri ekkert eftir, bara einhver steinsteypa. Stundum þegar ég hef farið í gegnum fátækrahverfi bandarískra stórborga eða íbúðarhverfi í niðurníðslu í Austur-Evrópu þá hef ég fengið svona tilfinningu. Ég held að það sé hættulegt að hafa engu að tapa og ekkert til að berjast fyrir.

Ein af þeim röksemdum sem fólk hefur um frjáls viðskipti milli landa og um Evrópubandalagið er að með því að láta fólk vinna saman, versla hvort við annað og gera það háð hvert öðru og meðvitað um gagnsemi þess að hafa sameiginlegt kerfi þá sé það ein af stoðunum undir frið - fólk sem hefur hagsmuni af friðsamlegum viðskiptum og samvinnu fer síður í stríð. Ég held að þetta skynsamleg röksemd, frjáls viðskipti sem allir hagnast á eru líkleg til að stuðla að friði. En mér finnst ekki heyrast raddir um mikilvægi þess fyrir frið að hafa eitthvað sameiginlegt til að verja og varðveita, einhverja helgidóma hvort sem þeir eru landsvæði, náttúra, menning eða samfélagsgerð.

Það er eins og einhver kraftur leysist úr læðingi á ákveðnum stöðum og stundum er eins og enginn ráði við hann, ég er búin að vera að skoða sögu Afganistan á þessari öld og það land hefur verið í víglínunni alla öldina. Verið í stríði við Breta, Sovétmenn, Bandaríkjamenn og bara flestallar þjóðir og hver við annan. Á öðrum stöðum getur fólk lifað í sátt og samlyndi öldum saman, hvers vegna springur allt í loft upp á sumum stöðum?

Talandi um staði þá fór ég í hadeginu á Austurvöll að skoða mótmælin. Er líka að skoða halendid.is og raddir.is Það er einn liður í þessari hálendisvitundarvakningu minni, ég er að reyna að koma mér upp skoðun á þessu virkjanadæmi. Las meira að segja tvær greinar, eina eftir orkumálastjóra með alls kyns tækniupplýsingum um miðlunarlón og eina eftir eðlisfræðing sem benti á að tiltölulega lítið land færi undir vatn þarna vegna þess að uppistöðulónið yrði svo djúpt, það var bara litlu meira en í Blönduvirkjun en þessi virkjun verður sex sinnum stærri. Kannski er réttur mælikvarði á náttúru ekki ferkílómetrar, kannski er það verðmætara land þarna fyrir austan en heiðalöndin sem fóru undir miðlunarlónið fyrir Blöndu. Hvernig metur maður náttúru? Er gljúfur kannski verðmætara en heiðar? Eru fossar verðmætari en mýrarlönd? Eru björg verðmætari en sandur? Ég heyrði einhvern segja um daginn að það væru hundrað fossar sem færu undir vatn, ég held það hafi verið sagt til að sýna fram á tapið. En á bak við svoleiðis staðhæfingu hlýtur að felast einhvers konar verðmat á náttúru og að hún sé mælt í tölulegum kvörðum, eitthvað um að þetta lón sé þeim mun verra sem fleiri fossar fara undir vatn.

Mér finnst að það eigi að virkja þarna fyrir austan ef þetta er arðsöm framkvæmd og ekki of mikil áhætta/óvissa um framtíðina, ef náttúruspjöllin eru ásættanleg, sérstaklega fyrir þá aðila sem búa á þessu svæði og ef þeir sem búa á svæðinu telja að þetta bæti mannlíf og menningu og lífskilyrði. Mér finnst langsamlega mestur vafi vera á umhverfisþættinum. Ég ætla að kynna mér það betur, lesa það sem er á landvernd.is og skoða star.is og spá jafnt í fossa sem mýrar því það eru margir fuglar sem verpa á láglendismýrum eins og kemur fram á fuglavernd.is, skoða hvað stjórnmálamenn eins og Björn og Valgverður og Katrín og Kolbrún og Siv segja um málið og skoða natturuverndarsamtok.is. Reyndar finn ég ekki neitt nýrra á vefnum hjá Siv um virkjanamál nema erindi á orkuþingi 2001.

27.1.03

Magnús fer til Afganistan


Nú er það komið á hreint, Magnús fer bráðlega til Kabúl í Afganistan og verður þar amk þrjá mánuði, sennilega sex mánuði. Kemur sem sagt ekki til baka fyrr en í haust. Við erum bæði á viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar. Ég er búin að skoða mikið upplýsingar um Afganistan á Netinu og mér sýnist frekar ólíklegt að við munum reyna að heimsækja hann, ástandið er ótryggt og ekki gott fyrir ferðamenn eða eins og stendur í Lonely Planet leiðarvísinum um Afganistan: "...unless you're wearing a uniform or a press badge, you probably won't be visiting these once-touristed destinations anytime soon."

Stafrænn mánuður


Stafrænt sjónvarp
Janúar 2003 markar ný tímamót í hinu stafræna lífi mínu. Í byrjun janúar fékk ég myndlykil og áskrift að mörgum tugum af stafrænum sjónvarps- og útvarpsrásum gegnum Breiðbandið. Mánuðurin hefur svo farið í að leika sér að fjarstýringunni, horfa á teiknimyndir á teiknimyndarásinni og leika sér að því að skipta um tungumál undir, horfa á breska þætti og leika sér að því að fá franskt tal með. Ekki finnst mér hinir stafrænu möguleikar mikið notaðir ennþá en ég held að allar útsendingar hljóti að verða bráðlega á stafrænu formi. Þetta ætti að gera aðlögun á milli málsvæða auðveldari, notandinn gæti valið texta og tal eins og hentar honum.

Stafræn myndbandsupptaka
Í gær var ég svo að taka upp á stafræna myndbandsvél, ég tók upp við sjóinn vestur á Ægissíðu og svo í eldhúsinu hjá mér. Þar tók ég upp þegar Kristín og Signý bökuðu skinkuhorn og muffins. Ég ætla að setja þetta upp sem kennsluefni og nota til þess Microsoft Producer, það virðist mér einfalt margmiðlunarkerfi og skjárinn skiptist í þrjá hluta, myndskeið, glæru og leiðarkerfi. Það kerfi hefur líka þá kosti að það er ókeypis (fyrir þá sem eiga Powerpoint 2002) og gengur með powerpoint sem margir kunna á.

Stafrænar myndir í síma
Nú hefur Síminn tilkynnt að hægt sé að senda MMS myndir og hljóð frá einum síma til annars. Ég held að þetta bjóði upp á heilmikla möguleika í fjarkennslu. Gaman væri að geta gert fyrstu tilraunina í MMS sendingum núna í janúar.

24.1.03

Föstudagsgaman


Það er alltaf gaman af svona föndri og svo er hérna á guimp.com agnarlítil vefsíða, þeir segja að þetta sé ein minnsta vefsíða í heimi. Góð fyrir gemsana.

23.1.03

Spaugstofan um Kárahnjúka


Spaugstofan um seinustu helgi var frábær, ég er búin að vera að spá í þessari virkjun þarna fyrir austan alveg frá því ég horfði á þáttinn. Spaugstofan vakti mig til meiri umhugsunar en allar þessar blaðagreinar og skot sem ganga fram og til baka frá þeim sem eru talsmenn virkjunar og álvers og þeim sem eru á móti. Er búin að vera að spá í hvort maður verði ekki að hafa skoðun á þessu, eiginlega er ég svona að óathuguðu máli frekar hrifin af virkjunum, það er líka ættariðja, sumir eru af presta- og sýslumannaættum en ég er af virkjanaættum og vann líka sjálf upp á hálendinu við Þórisós í tvö sumur á menntaskólaárunum, frændur mínir tveir voru alls ráðandi í virkjunarframkvæmdum þarna á hálendinu á þessum árum, annar við Þórisós og hinn við Vatnsfell og síðar Kröflu. Þeir stýrðu fyrirtækjunum Þórisós og Miðfell sem voru gríðarstór þegar framkvæmdirnar voru sem mestar. Faðir minn var trésmiður og hann vinn við virkjanir í mörg ár og stjórnaði steypustöðinni í Sigöldu og bróðir minn og margir frændur unnu við Blönduvirkjun. Það voru reyndar ættingjar mínir á Guðlaugsstöðum í Blöndudal sem voru á þeim bóndabæ sem næst var þeirri virkjun og misstu mest land þar. Mig minnir að þeir hafi reyndar verið mikið á móti virkjuninni þó að landið hafi verið bætt með uppgræddu landi annars staðar. En Landsvirkjun keypti Eiðsstaði sem er næsti bær við og þar var langa-langafi minn og amma og það er bara tímanna tákn að afkomendur listasmiðsins Hannesar á Eiðsstöðum skuli hafa erft smiðsgáfuna en noti hana til að smíða raforkuvirki. Svo er Magnús líka sterkstraums-raforku-verkfræðingur og á ferðum okkar um landið þarf alltaf að stoppa við öll raforkuvirki og þau skoðuð nákvæmlega eins og einhvers konar náttúruperlur. Sé nú ekki beint fegurðina í þeim samt, nema hafði gaman af því að keyra upp að Smyrlabjargavirkjun en það eyðilagði náttúrulega bílinn og fara á honum upp á það fjall.

En það er kannski óábyrgt að hafa enga skoðun á þessi virkjanamáli... ætla að spá í það. Skrýtið samt hvað sama landsvæði virkar mismunandi eftir því hvorn vefinn maður skoðar, hjá Landsvirkjun sér maður mest hallærisleg grámyglufjöll og algjöra jökulurðarauðn en hjá inca.is eru margar fínar myndir frá honum Jóni Ísberg.

22.1.03

Minningarorð um Blogg dauðans



Blogg dauðans svipti sig lífi í bloggheimi í dag. Athöfnin var látlaus, hjartnæm kveðjuorð og þakkir til þeirra sem ömuðust ekki við blogginu. Líka alls kyns spök orð og vísur. Líka um píslarvætti og ofsóknir. Soldið jesúlegt. En hvert fara dauð blogg? Er til framhaldslíf utan bloggsins? Mér virðist Bloggari dauðans trúa á framhaldslíf og annan stað í nýjum heimi. Enda virkar hann rammheiðinn og vill ekki veslast upp af einhverju innanmeini heldur deyja sem hetja í orrustu. Handanheimar bloggara eru lagskiptir, ódáinsakrar fyrir þá sem deyja píslarvættisdauða. Eða eins og hann segir sjálfur um næsta áfangastað sinn:

"Hvert? Kannski á ódáinsvelli að hitta aðra bloggara sem hafa verið „stalkaðir“ burt af netinu. Hvert sem Bloggari dauðans fer, ekki reyna að finna hann því hann vill engan hitta."

Ég er strax farin að sakna Bloggs dauðans. Svo knöpp orðnotkun og mikil speki um litla hluti. Eða kannski lýsa því sem skipti máli með hversdagslegum dæmum. Fyndið. Úrillt. Gáfað. Lesið. Bókmenntalegt ádeilublogg. Textinn oft á tíðum hrein snilld, bloggið sem byrjaði með svona setningu:"Menn skulu ekki ímynda sér að þeir fái hér yfirlit yfir þau partí sem ég mæti í, þaðanafsíður hvað ég geri í þeim."

Annars er eftirlætisetningin mín úr Bloggi Dauðans hið mikla innsæi í sænskt samfélag sem var í blogginu á Lúsíudaginn seinasta, kannski af því hann sagði þá eitthvað sem mér fannst eins og ég hefði alltaf hugsað en ekki getað orðað fyrr en Bloggari dauðans orðaði það. Hann lýsti Svíþjóð með rauðum pulsum og "...Öllum skiltunum sem á stendur: Ejutgång. Hvarvetna þar sem eru margar hurðir í Svíþjóð hanga skilti með orðinu ejutgång. Einhverjum hefði kannski þótt nærtækara að merkja hvar leyft sé að fara út. Svíum finnst mikilvægara að koma á framfæri hvar það sé bannað."

Ég hugsa að Bloggari Dauðans finni alltaf útgönguleið.

21.1.03

Rafræn vöktun - Hugleiðing



Ég las áðan bréf á póstlista HÍ þar sem allir sem hafa tengsl á Norðurlöndum eru beðnir um að framsenda myndir af Guðrúnu Björgu sem hvarf í Kaupmannahöfn og mun vera mjög veik eftir því sem kom fram í viðtali við föður hennar í Dagblaðinu. Það eru erfiðir tímar hjá aðstandendum hennar núna og mín dýpsta samúð er með þeim. Það hefur hins vegar hvergi komið fram annað en hér fari sjálfráða einstaklingur sem hefur fullt ferðafrelsi. Ekki hefur heldur komið fram að Guðrún Björg liggi undir grun um eitthvað saknæmt eða sé vitni í slíku. Þess vegna er ég undrandi á því að vísað sé í mynd af henni sem tekin er á Keflavíkurflugvelli þegar Guðrún Björg fór út eð því er segir í texta með myndinni. Getur verið að þessi mynd sé úr rafrænu eftirlitskerfi á Keflavíkurflugvelli?

Ef svo er þá stangast það mjög á við hvað hefur verið mín sýn á hvernig beri að fara með upplýsingar sem opinberir eftirlitsaðilar afla. Ennþá sorglegra væri að myndin er á vísindavef Háskóla Íslands. En Persónuvernd er sá aðili sem ætti að fjalla um þetta mál.

Viðbót 22. jan.: Það hefur komið fram í fjölmiðlum að Guðrún Björg var svipt sjálfræði fyrir nokkrum mánuðum. Ég vissi það ekki. Það breytir ýmsu, forráðamenn hennar hafa væntanlega snúið sér til lögregluyfirvalda og beðið um aðstoð.

Tjáningarfrelsi, bloggfrelsi


Ég held að það sé alltaf tilhneiging hjá þeim sem hafa völd að kæfa raddir sem mótmæla og gagnrýna. Svo er náttúrulega alltaf líka tilhneiging að valdið safnist saman hjá þeim hópum sem eru sterkastir, þeir geta verið sterkir vegna auðlegðar, samtakamátts eða kænsku eða stjórnkerfis sem tryggir þeim völdin. Þetta samanlagt þýðir að þeir fátæku, dreifðu og fákunnugu sem tilheyra hópum sem aldrei hafa haft völd eða búið til stjórnkerfi eru alltaf útsettir fyrir að þeir sem hafa völd vilja halda hinum valdalausu áfram fátækum, dreifðum og fákunnugum og koma í veg fyrir að þeir geti búið til valdakerfi og gagnrýnt og mótmælt. Þetta er kannski ekki svo alvarlegt ef samfélag er mjög einsleitt (eins og Ísland var einu sinni) eða ef aðstöðumunur hópa er fyrst og fremst bundið lífsferli (réttlaus börn og unglingar verða fullorðnir einstaklingar með réttindi).

Mér finnst gífurlega mikilvægt að tjáningarfrelsi á Internetinu og reyndar í allri fjölmiðlun verði ekki skert. Ég fann þessa vefsíðu um tjáningarfrelsi á Internetinu hjá Reporters without Borders. Vefurinn þeirra er reyndar almennt um tjáningarfrelsi í heiminum og þeir hafa þar World Wide Press Freedom Index. Það er ansi gaman að sjá að Ísland er þar í efsta sæti ásamt Finnlandi, Noregi og Niðurlöndum. Í neðstu sætunum eru Búrma, Kína og Norður-Kórea. Það er nú ekki gott ástand í sambandi við Internetið í Kína, þeir láta sér ekki nægja að loka Internetkaffihúsunum heldur eru þeir núna farnir að loka á bloggara á blogspotsjá þetta frá 16. janúar:
"01.16.2003 - For the past week, the authorities have blocked access to the US-based website blogspot.com, which puts personal diaries online and is used by more than a million people worldwide. Jason Shellen, who runs the site from California's Silicon Valley, confirmed that there were no technical problems and that it was censorship. But a Chinese Internet user told Reuters news agency that the ban would not succeed because people would find ways round it. The website managers say they will seek talks with the Chinese authorities. "
Þetta er ekki góðs viti.

20.1.03

Næsta sumar


Núna í kuldanum og vetrarsólinni þá er ég farin að plana næsta sumar. Kristín fermist í vor. Við vorum nú að plana að fara með hana í ferð til USA því hún er fædd þar og er því með bandarískan ríkisborgararétt en fór til Íslands 2 mánaða að aldri. Öll plön gætu riðlast núna út af verkefni sem Magnús fer hugsanlega í. Kannski maður ætti frekar að huga að því að læra meiri spænsku og fara aftur á málaskóla. Reyndar langar mig ekkert sérstaklega að fara frá Íslandi að sumri til, það er sá tími sem skemmtilegast er að vera hérna. En Ragga frænka Magnúsar býr á Spáni, hún býr í gömlum sumarbústaði nálægt Barcelona sem núna er orðin heilsárshús. Húsið er í skógarjaðri og þar er fallegur garður með ilmandi kryddjurtum. Hér er Kristín að tína snigla í garðinum þeirra sumarið 2001. Núna er Ragga er að leigja íbúð rétt við strönd, 30 mínútur frá Barcelona. Annars stefni ég á að fara í viku til Madríd núna í vetur.

17.1.03

Lestrarsalur Háskólans


Mér finnst mjög einkennilegar fréttir um Þjóðarbókhlöðuna, bæði að það séu settar þar reglur um að fólk undir 18 ára aldri megi ekki vera þar og að nemendur við Háskóla Íslands megi einir nota þar lestraraðstöðuna eins og kemur fram í frétt í Mbl.is í dag. Ég hef séð að Borgarbókasafnið hefur einhverja slíka aldurstakmörkun á Internettengdum tölvum. Þetta væri ansi skrýtið ef það væri miðað við önnur einkenni fólks, t.d. að konur fengju ekki aðgang að söfnum eða að ellilífeyrisþegar fengju ekki aðgang að söfnum. Vonandi lætur umboðsmaður barna þetta mál til sín taka, það er mannréttindamál að stofnanir sem ég held að eigi að sinna þjónustu fyrir almenning setji ekki upp eigin reglur til að skilgreina hverjir eigi að njóta þjónustunnar og hverjir ekki.

Reyndar sé ég ekki upplýsingar um þessa reglu á vefs safnsins, þar stendur að hluti borða sé fyrir HÍ nema á meðan á próftíma stendur: "Meðan á próftíma í Háskóla Íslands stendur er meiri hluti lesborða á 3. og 4. hæð frátekinn fyrir stúdenta sem stunda nám við Háskóla Íslands".

Annars finnst mér einkennilegt hvað mikið af þjónustu í Þjóðarbókhlöðu snýst um að skaffa lesrými fyrir stúdenta á prófatíma. Ég hef komið þarna á prófatíma og mér virðist að allur þorri þeirra sem sitja þar við lestur sé ekki að sækja neina þjónustu þarna nema næði til lesturs. Kannski líka hvatningu og örvun til lesturs við að vera þarna í musteri bókanna.

15.1.03

Systir mín og snjórinn




Vildi óska þess að veturinn í ár verði eins snjóléttur og þessi í fyrra og hitteðfyrra. Fyrsti snjórinn var bara á mánudaginn og hér fyrir sunnan er bara örlítið föl á láglendinu. En systir mín býr ásamt manni og þremur dætrum á bóndabæ nokkra kílómetra frá Bolungarvík og vinnur á Ísafirði og hún finnur meira fyrir snjónum. Fyrsta veturinn eftir að hún flutti þangað þá minnir mig það hafi verið svo mikill snjór þar að frá því í janúar og langt fram á vor var ekki fært frá bænum nema á snjósleða. Húsið næstum hvarf alveg í skafl. Þau geymdu þá bílinn sinn nálægt afleggjaranum við Ósvörina og hún fór svo akandi þaðan Óshlíðina til Ísafjarðar. Maðurinn hennar er bóndi og svo vinnur hann líka við snjóflóðaeftirlit, gengur á fjöll kringum Bolungarvík og skoðar snjóalög. Systir mín keyrir Óshlíðina á hverjum degi í vinnuna og ég held að það hljóti að vera einhver hættulegasti vegur á Íslandi. Allt fullt af vegaskálum og snjóflóðavarnarbúnaði og krossar hér og þar á leiðinni til minningar um þá sem hafa dáið þarna. Þarna eru alltaf að falla snjóflóð, flest samt lítil. Á veturna þegar hún er að keyra heim úr vinnunni og það er erfið færð og snjókoma og hún verður að fara hægt yfir þá hringir hún stundum í mig á leiðinni til að spjalla þangað til eitthvað kemur upp á þannig að hún þarf alla athygli við aksturinn. Það er alltaf gaman að heyra í henni en ég get samt ekki sagt að mér líði vel þegar samtölin enda svona: "Verð að hætta núna að tala...það er snjóflóð hérna framundan..."

14.1.03

Sálmurinn um blómið


Þórbergur Þórðarsson skrifaði bókina Sálminn um blómið um litla stelpu. Eða kannski var hann bara að skrifa bók um sjálfan sig og barnið var þar sögupersóna til að uppgötvar veröldina í gegn um gamlan mann (Þórberg). Svo var bókin líka eins konar ritdeila á keppinautinn Halldór Laxness og skáldsöguformið. Þórbergur var mest fyrir sannar sögur. Þórbergur kallar stelpuna í sögunni alltaf litlu manneskjuna. Þessi stelpa var til í alvöru og heitir Helga Jóna Ásbjarnardóttir. Ég man eftir viðtali við hana fyrir mörgum árum í Morgunblaðinu. Það var víst ekkert skemmtilegt fyrir hana að vera þessi litla manneskja eftir að bókin kom út.

Ég veit ekki hvort hún hafi verið spurð hvort hún vildi vera þessi litla manneskja í þessari bók sem var um barn en var kannski mest fyrir fullorðna. Kannski er þetta það sama og raunveruleikasjónvarpið núna hálfri öld seinna. Í myndinni Hlemmur er brugðið upp svipmyndum af fastagestum á þessum áfangastað og fylgst með lífshlaupi þeirra um stund og reyndar líka dauða. Fyrir skömmu birtist í DV bréf frá móður og öðrum aðstandendum eins af Hlemmbúum í myndinni , titillinn var Niðurlæging út fyrir gröf og dauða og var þar deilt á upptökur og viðtöl við veikan mann.

Ég fór í fyrra á ljósmyndasýningu Mary Ellen Mark á Kjarvalsstöðum. Ég held að bók Þórbergs, kvikmyndin Hlemmur og ljósmyndir Mary Ellen eigi það sameiginlegt að vera ekki skrifaðar af og fyrir þann hóp sem er viðfang í þessum bókum, þetta eru verk sem eru skrifuð fyrir þá sem standa fyrir utan heim barnsins, flækingsins og fíkniefnaneytandans. Er þessi verk raunveruleiki eða einhvers konar sannleikur? Ég held að sá sannleikur sem felst í þessum verkum er kannski fyrst og fremst sannleikurinn um hvernig þeir sem skrifa söguna eða búa til myndverkin líta á þessa heima.

Annars er gaman að spá í hvernig fólk sér mismunandi hluti út úr skáldverkum, Birgir segir að Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur sé Sálmurinn um blómið á hvolfi og segir: "Amma Lindu kallar hana í sífellu litlu manneskjuna en það er sem kunnugt er alþekkt hugtak úr bók Þórbergs Sálminum um blómið. „Litla manneskjan“ gengur eins og eins konar leiðarstef gegnum bókina.." Svo segir Birgir að með þessu birtist rýni sögu­höfundar á kynbundnum muni bókmenntanna, að karlar séu í eðli sínu sögumenn en konur upplifi án þess að miðla. Sobbeggi segir frá sálmi og blómi, Linda upplifir „sálma“ og blóm gegnum ömmu sína og þögn hennar. Ég hlustaði einu sinni á Dagnýju Kristjánsdóttur segja frá Þögninni og þar túlkaði hún þetta sögu sem fjallar um illsku, valdbeitingu og geðklofa.

Held ég sé ekki er sammála Birgi um þessa túlkun á kynbundnum mun á bókmenntum, held hann sé eins og margir aðrir að leita að staðfestingu á sínum eigin viðhorfum í sögnum. Hér dettur mér í hug að ein umtalaðasta bókin í ár heitir RÖDDIN og er sakamálasaga eftir karlmann. Sakamálasögur eru eins konar óður til valdsins og kerfisins og viðhalds einhvers konar stjórnsýsluvaldakerfis, kannski er svoleiðis saga andstæða við bók eins og ÞÖGNIN sem er það innhverfasta af öllu innhverfu, píslarganga kraminnar sálar.

11.1.03

Sálumessa yfir Subaru - Íslandsklukkan fundin


Dró hinn 17 ára gamla Subaru aðKlettagörðum í Sundahöfn hjá athafnasvæði Hringrásar. Þar var hann lagður til hinnstu hvílu og hans mun bíða þau örlög að pressast í brotajárn og flytjast úr landi. Við vorum þarna í myrkri en samt varð ég gjörsamlega heilluð af þessum dótahrúgum með alls konar málmhlutum. Þær voru margir tugir metra á hæð og ná yfir stórt svæði. Mér sýndist þarna margt eigulegra muna. Alla vega hráefni í listsköpun. Þar voru borð og stólar (gömul skólaborð) og þarna voru pottar og pönnur og vaskar og margt sem skreytt getur íverustaði. Þarna voru reiðhjól og þarna voru bílar. Ég sá ævaforna nilfisk ryksugu sem eiginlega var antik. Svo var þarna fullt af málmvélum, að mér fannst eins og framleiðsluvélar úr frystihúsi. Núna haugamatur. Ó, bara maður hefði ennþá Subaru station og gæti fyllt hann af dýrgripum... náttúrulega líka mikið landflæmi til að geyma gripina í. En ég fann eina stóra bjöllu eða klukku. Hún verður mín Íslandsklukka. Held þetta hafi kannski ekki verið klukka, held þetta sé eitt hlutur úr stórri vél sem kannski hakkaði einu sinni fisk.

En mín klukka minnir mig á sögu um aðra klukku sem byrjar svona:

Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli lögréttuhússins á Þíngvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kveikinni. Henni var hríngt til dóma og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi leingur aldur hennar með sannindum. En um það er sagan hefst var laungu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari.

9.1.03

Auðlindahagfræði, sjálfbær þróun, almenningseign og fullveldi



Einu sinni var Sahara skóglendi. Nú er þar eyðimörk. Þetta er víst út af ofbeit öldum saman. Sumir hagfræðingar telja að meinið liggi í því að það sem sé almenningseign hljóti alltaf að vera étið þangað til það er uppurið. Þeir bera fyrir sig ritið Tragedy of the Commons eftir Whitehead frá seinustu öld en í hann og Hardin er gjarnan vitnað með svona lífspeki:
A tragedy because of the "solemnity of the remorseless working of things" (Whitehead). "Ruin is the destination toward which all men rush, each pursuing his own best interest in a society that believes in the freedom of the commons. Freedom in a commons brings ruin to all." (Hardin)

Það er spurning hvort að hin sameiginlegu afréttarlönd hafa ekki gert Hálendi Íslands að þeirri auðn sem það er. Annars sá ég að Ísland var tekið sem dæmi á vef um sjálfbæra þróun, bæði þessar stærstu eyðimerkur í Evrópu sem eru í íslenskum óbyggðum og svo fiskimiðin. Þetta er borið saman við Price Edward eyju og bent á hve mikilvægt fullveldi er og sjálfákvörðunarvald þeirra sem búa hjá og yrkja auðlindir. :

"These examples show that concentrated, abstract ownership can drive a number of system trends relentlessly toward Whitehead’s “inevitable tragedy”. Sovereignty, properly understood, can be seen as a powerful counter force for self-sufficiency or sustainability. It is from that perspective that we need to view more carefully the trend in Newfoundland and Prince Edward Island toward reducing their sovereignty over the last hundred years, while Iceland moved in the other direction. Indeed, Iceland even endured the so-called “cod wars” with the United Kingdom in order to preserve the sovereignty of its fishery. We can see the same drives toward sovereignty at work now in the Faeroe and Aland islands, so that they too may assert a firmer hold upon their own political and economic space.

Now, of course, it is easy to romanticize the struggle and to become misled. One such way would be misread this exercise as simply a nostalgic call to return to the past. It is important to recognize at the outset that the subsistence model was itself no utopia. A visitor’s challenging introduction to the traditional Icelandic cuisine based on using all parts of an animal’s body tells us how hard and practical life must have been. Nor was the subsistence model free from ignorance. A first time visitor to Iceland is struck by the lack of trees and soil. The naïve assumption is that this lunar landscape is solely the result of it being a volcanic area. In fact, this desolate landscape is largely the result of generations of poor grazing and agronomic practice."


Ef fiskiskiptafloti Íslendinga og kvótaeign kemst mestallur í eigu ópersónulegra aðila innlendra og erlendra og stýringin verður kannski í höndum erlendra aðila sig eiga fyrirtæki sem eiga fyrirtæki sem eiga banka sem á fyrirtæki o.s.frv. er þá ekki hætta að við lendum í svona Tragedy of the Commons stöðu? Hér er ég að pæla hvort að svona abstrakt eignarhald eins og hlutabréfaeign í gegnum verðbréfamarkaði er ekki ákkúrat eins mikil ógnun við gjöful fiskimið og almenningseign á afréttarsvæðum...þarf að pæla betur í þessu.

Kjörbox


Það er voða flókið að fylgjast með pressunni þessa daganna, á hverjum degi er í Mogganum langloka um eitthvað fjármáladæmi sem ég skil ekkert í. Svo er líka á hverjum degi birt ný skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka og það virðist bara sveiflast upp og niður eftir veðri og vindum. Mér sýnist svona kannanir vera núna aðalbaráttutækið, kannski ágætt að rifja upp að það var skoðanakönnun sem Hrannar lét framkvæma sem bjó til Reykjavíkurlistann á sínum tíma. Aðalatriðið er náttúrulega samt hvað kemur upp úr kjörboxunum í vor. En það er að renna einhver berserksmóður á stjórnmálamenn núna, ég heyrði ekki betur en Siv segði í Kastljósviðtali í gær að hún vildi helst setja upp (box)hanska og fara út á akurinn og tala við kjósendur. Spurning náttúrulega hvað sér mikið á kjósendum eftir svoleiðis samtöl.

6.1.03

Systir mín sagði sig úr kjörnefndinni


Guðrún Stella systir mín sagði sig úr kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í gær og hefur þetta að segja um málið. Það er fjallað um þetta í fréttum hjá RÚV og í þessari frétt á mbl.is en þar segir:

"Mér fannst að kjörnefndarmenn, og þá ekki síst formaður kjörnefndar, væru ekki tilbúnir að taka til umfjöllunar þær kærur sem eru komnar fram frá Vilhjálmi Egilssyni og stuðningsmönnum hans," segir hún. "Það voru ekki komnar fram formlegar kærur þegar þessi nefnd hittist síðast og ég taldi þær hafa breytt stöðunni. Það virtist hins vegar ekki vera vilji til þess að fara yfir kærurnar og ég sá mér ekki fært að starfa lengur í nefndinni undir því."

Hún segist ítrekað hafa reynt að fá nefndina til að fjalla um málið auk þess sem hún hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna um kosningarnar í Borgarnesi. "Mér fannst steininn taka úr þegar formaður nefndarinnar sagðist ekki hafa áhuga á að lesa greinargerð Vilhjálms og er ég þó ekki neinn sérstakur stuðningsmaður hans. Þetta er einfaldlega prinsippatriði."